Flutningur ríkisstofnana

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 16:07:12 (1060)

1996-11-12 16:07:12# 121. lþ. 21.16 fundur 17. mál: #A flutningur ríkisstofnana# þál., Flm. HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[16:07]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í sambandi við þá umræðu sem hér fór fram eftir að hæstv. umhvrh. ræddi málið frá sínum sjónarhóli hefur umræðan snúist mjög um fyrirhugaðan tilflutning tiltekinnar ríkisstofnunar. Ég vil minna hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur á að eins og ég hef lagt málið fyrir sem 1. flm. þessa máls tel ég vænlegast að byggja upp svæðisbundna þjónustu. Ekki að vera að taka stórar eða grónar ríkisstofnanir í ríkum mæli upp úr sínu umhverfi heldur að færa þjónustuþættina með því koma þeim upp á skilgreindum svæðum í landinu við alla þá íbúa sem þar eru og færa þannig þjónustuna nær. Hv. þm. tjáði sig mjög lítið um þetta. Hins vegar hafði hv. þm. uppi mjög ákveðin orð varðandi hugmyndina um þriðja stjórnsýslustigið, og það er ástæðan fyrir því að ég bað um að veita andsvar. Orð sem komu mér verulega á óvart. Þingmaðurinn sagði að það væri algjörlega út í hött. Minnist ég þá tillagna sem voru til umræðu á vegum stjórnskipaðrar nefndar um þetta efni, síðast 1985, þar sem fulltrúi Kvennalistans, núv. hv. þm. Kristín Halldórsdóttir, ef ég man rétt, tók þátt í að mæla með, ég held eindregið, að þriðja stjórnsýslustigið yrði sett á fót. Og ég minnist orða fyrrverandi hv. þm. Málmfríðar Sigurðardóttur sem mælti hér oft með að brugðið yrði einmitt á það ráð, ekki síst út frá þeirri hugsun að skapa traustan grunn til að koma stjórnsýsluþáttum ríkisins nær fólkinu.