Flutningur ríkisstofnana

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 16:11:43 (1062)

1996-11-12 16:11:43# 121. lþ. 21.16 fundur 17. mál: #A flutningur ríkisstofnana# þál., Flm. HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[16:11]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki að ástæðulausu að tillögur hafa verið uppi hjá þeim sem gerst þekkja til málefna landsbyggðarinnar, að komið verði á slíku stjórnsýslustigi með tilliti til þess að sveitarfélög í landinu munu seint verða endurskipulögð með þeim hætti að þau komi í staðinn fyrir það sem ætlað er að ná með þriðja stjórnsýslustigi. Nema menn setji í hættu þá kosti sem fylgja þurfa sveitarfélagi. Ef menn ætla að fara að þenja sveitarfélögin út yfir ákveðna stærð, láta þau t.d. spanna allt Austurland, eru menn komnir með sveitarstjórnina svo óralangt frá þeim sem hún á að þjóna, að þeir eru búnir að missa fótanna í því grundvallaratriði lýðræðislegrar uppbyggingar að fulltrúinn sé ekki mjög fjarri landfræðilega séð. Þetta er ástæðan og eiga sumir hér á þessu svæði kannski eðlilega svolítið erfitt með að skilja.

Þingmaðurinn nefndi hættuna af nálægð þjónustu við íbúa, hana væri hægt að misnota. Hvað um Reykjavík og Reykvíkinga? Er ekki stórhættulegt að vera með stjórnsýsluna hér alveg upp í nefinu á Reykvíkingum? Ég get ekki verið þeirrar skoðunar út af fyrir sig og óttast ekki mjög það sem hv. þm. sagði að því leyti.