Flutningur ríkisstofnana

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 16:31:09 (1069)

1996-11-12 16:31:09# 121. lþ. 21.16 fundur 17. mál: #A flutningur ríkisstofnana# þál., EKG
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[16:31]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi láta í ljós ánægju mína með að umræða um þetta mál skuli rata inn á Alþingi því ég held að það sé eitt af stóru málunum sem við þurfum að taka afstöðu til og ræða og komast að niðurstöðu hvernig við stöndum að flutningi ríkisstofnana út á land. Við getum auðvitað velt fyrir okkur hvers vegna við höfum ekki fyrr sett okkur reglur, markað vinnureglur um hvernig standa beri að því að færa ríkisstofnanir út á land. Ég held að svarið hafi verið fært áðan af fyrri ræðumönnum sem bentu á að hingað til höfum við staðið okkur illa í að færa ríkisstofnanir frá höfuðborgarsvæðinu út á land eða með öðrum orðum að staðsetja ríkisstofnanir úti á landi því ef við lítum yfir nokkurra ára tímabil hafa orðið til nýjar ríkisstofnanir sem allt eins hefðu getað verið settar niður úti á landi eins og hér í Reykjavík.

Ástæðan fyrir því að við höfum ekki sett okkur þessar reglur er einfaldlega sú að svo fá ríkisfyrirtæki hafa verið flutt út á land að menn hafa trúlega ekki talið mjög mikla þörf á að setja almennar reglur. En það er skynsamlegt í málum eins og þessum að til staðar séu almennar meginreglur um hvernig staðið sé að því að færa til stofnanir og fyrirtæki.

Í nefnd sem starfaði undir forustu Þorvaldar Garðars Kristjánssonar, fyrrv. alþm., voru þessi mál skoðuð nokkuð ofan í kjölinn og fór fram almenn umræða um þessi mál jafnframt því sem lagðar voru fram beinar tillögur um tiltekin flutning á ríkisstofnunum. Ég held að sú nefnd hafi unnið á margan hátt mjög gott starf þó deila megi um einstakar tillögur nefndarinnar sjálfrar. Engu að síður örvaði skýrslan, sem nefndin sendi frá sér, alla umræðu um þessi mál og er, eins og fram hefur komið í umræðunni t.d. um Landmælingar, á vissan hátt forsenda fyrir því að ákvörðun var tekin um að færa Landmælingar til Akraness þó að í nefndinni hafi verið lagt til að færa þær á Selfoss, eins og margfrægt er orðið af umræðunni í dag.

Ég held að menn verði að átta sig á að þó settar yrðu reglur af þessu tagi og þær almennt góðar, þá getum við ekki gert ráð fyrir að þær leysi allan vanda. Eftir sem áður er ég sannfærður um að í hvert skipti sem við förum að hyggja að því að færa ríkisstofnanir af höfuðborgarsvæðinu út á landsbyggðina munu koma upp álitamál. Það er einfaldlega þannig, eins og fram hefur komið, að starfsmönnum er almennt séð fremur illa við allt rask sem fylgir flutningi stofnana jafnvel innan sveitarfélags. Við höfum kynnst því t.d. á þessu ári að menn hafa haft uppi efasemdir um tilflutning ríkisfyrirtækja á Reykjavíkur/Kópavogs-torfunni og hvað þá þegar færa á fyrirtækin eitthvað lengra. Þetta út af fyrir sig er vandamál sem við þurfum alltaf að standa frammi fyrir. Það breytir því hins vegar ekki að við hljótum eftir sem áður að stefna að því að færa ríkisstofnanir út á land og vinna skynsamlega að því að skapa sem mestan og lengstan umþóttunartíma alveg eins og verið er að leggja til með flutning Landmælinga frá Reykjavík til Akraness.

Þegar maður fer í gegnum umræðu um flutning ríkisstofnana eru oftast settar fram hálfgerðar gerviröksemdir. Menn segja: Það er ekki hægt að flytja þessa eða þessa stofnun vegna þess að hún er háð þessari og þessari starfsemi í Reykjavík. Þegar farið er að skoða þetta nánar er auðveldlega hægt að sýna fram á að starfsemi þessara stofnana getur allt eins farið fram á Akureyri, Egilsstöðum, Akranesi eða á Vestfjörðum og í Reykjavík. Samgöngur eru að batna, fjarskiptin eru að skapa mikla byltingu og gerir það að verkum að engar raunverulegar röksemdir, nema í sárafáum tilvikum, eru gegn því að færa ríkisstofnanir út á land.

Engu að síður kostar ævinlega töluverð átök að færa ríkisstofnanir. Þessu kynntumst við varðandi veiðistjóraembættið, hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Þetta var líka þegar verið var að færa Skógræktina austur á Hérað. Þá urðu líka deilur um það mál þó mig reki ekki minni til að þær hafi verið jafnharðar eins og t.d. deilurnar um Landmælingarnar. Þess vegna velti ég því stöðugt meira fyrir mér hvort við eigum ekki líka að marka okkur meginreglur um að þegar ný ríkisstofnun verður til verði sérstaklega hugað að því að staðsetja hana úti á landi. Það er alltaf miklu einfaldara þegar verið er að búa til nýja stofnun, nýtt ríkisfyrirtæki, að velja því staðsetningu einhvers staðar annars staðar en í Reykjavík. Ég held, því miður, þegar við skoðum fjárlagafrv. og lesum allan þann mýgrút og aragrúa af ríkisstofnunum sem þar eru tilteknar og gerum okkur grein fyrir hvað margar þeirra hafa orðið til á allra síðustu árum, þá sé ljóst að við höfum verið að missa af mjög mörgum skynsamlegum og góðum tækifærum. Þess vegna segi ég, virðulegi forseti: Við eigum líka að móta okkur stefnu um hvernig við stöndum að því að staðsetja nýjar ríkisstofnanir úti á landi og jafnframt að marka okkur meginreglu, eins og hér er verið að leggja til.

Ég vil í þessu sambandi sérstaklega nefna að á landsfundi Sjálfstfl. voru þessi mál rædd. Þar komust menn að þeirri niðurstöðu, eins og ég hef þegar vakið athygli á m.a. í blaðagrein, að marka bæri slíka stefnu um staðsetningu nýrra fyrirtækja úti á landi.

Einnig er ástæða til að nefna annað og það er hvort ekki sé hægt að færa skipulega tiltekin verkefni einstakra ríkisstofnana sem núna eru í Reykjavík út á land. Það datt mér í hug um daginn t.d. þegar Hafrannsóknastofnun auglýsti eftir starfsfólki til skrásetningarvinnu og vinnu af því taginu, vinnu sem þess vegna mætti með nútíma fjarskiptatækni vinna hvar sem er, hvar sem er í veröldinni þess vegna. Af lestri auglýsingarinnar varð hins vegar ekki ráðið að ætlast væri til eða gert ráð fyrir að sú starfsemi færi annars staðar fram en við Skúlagötu 4 í Reykjavík þar sem höfuðstöðvar Hafrannsóknastofnunar eru. Við erum bundin klyfjum vanans sem við þurfum nauðsynlega að losna út úr.

Virðulegi forseti. Tími minn er bráðlega á þrotum. Ég vil með almennum orðum taka undir það meginsjónarmið sem sett er fram. En þó vil ég bæta þessu við: Það er auðvitað til lítils að vera að marka okkur meginreglur um flutning ríkisstofnana út á landsbyggðina nema að baki búi sá ásetningur okkar að flytja ríkisstofnanir út á land. Það er ekki nóg að setja okkur einhverjar meginreglur nema um leið fylgi sá ásetningur að færa ríkisstofnanir frá höfuðborgarsvæðinu út á landsbyggðina. Ellegar er til einskis að setja okkur reglur. Ákvörðun Alþingis um að setja slíkar reglur er því eðli málsins samkvæmt líka ákvörðun um að herða sig upp í að færa fleiri ríkisstofnanir út á landsbyggðina.