Flutningur ríkisstofnana

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 16:39:34 (1070)

1996-11-12 16:39:34# 121. lþ. 21.16 fundur 17. mál: #A flutningur ríkisstofnana# þál., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[16:39]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi umræða hefur verið um margt merkileg og menn farið um víðan völl. Þegar verið er að tala um eðlilegan og réttan flutning ýmissa ríkisstofnana út á land talaði síðasti ræðumaður um að við séum að búa okkur til gerviröksemdir. Það hafi komið fram og við séum bundin klyfjum vanans. Það kann að vera en þegar grannt er skoðað skulum við athuga hver voru t.d. meginrökin fyrir að flytja Landhelgisgæsluna til Keflavíkur. Meginrökin voru þau að nú væri fyrirtækið Flugleiðir farið að annast eftirlit og viðhald Fokker Friendship flugvélarinnar og þess vegna væri eðlilegt að flytja Landhelgisgæsluna til Keflavíkur. Hvað þýddi þetta þegar grannt var skoðað? Þetta þýddi að flugvél Landhelgisgæslunnar færi á þriggja ára fresti í skoðun hjá Flugleiðum á Keflavíkurflugvelli. Þess vegna töldu menn að eðlilegt væri að flytja alla Landhelgisgæsluna, flugflota og skipakost til Keflavíkur. Þetta eru ekki nokkur rök. Því þegar betur er að gáð skulu menn athuga að skip Landhelgisgæslunnar hafa legið um áratuga skeið í Reykjavíkurhöfn án nokkurs endurgjalds. Reykvíkingar hafa kostað sérstaka hafnargerð þar sem Landhelgisgæslan hefur aðstöðu. Í Keflavík þyrfti að byggja nýja aðstöðu með tilheyrandi hafnargerð fyrir hundruð milljóna króna.

Menn eru að tala um að flytja eigi ýmis fyrirtæki. Af hverju má þá ekki flytja nýja Siglingastofnun núna? Hún er komin til Kópavogs. Siglingastofnun hefur flutt til Kópavogs og hefur sameinast Vita- og hafnamálastofnun. Er það ekki flutningur í sjálfu sér úr Reykjavík? Er það ekki það sem menn eru að tala um? Að leggja ofurkapp á að ríkisfyrirtæki skuli flutt úr Reykjavík. Meginmálið, sem hv. þm. er hér hafa talað gleyma, er hverjir það eru sem þurfa að njóta þjónustunnar. Hverjir ætla að njóta þjónustunnar? Það er fólk sem kemur víðs vegar að af landsbyggðinni. Og hvað þá? Eru hv. þm. dreifbýlisins að leggja til að þeir aðilar sem þurfa að koma og leita eftir opinberri þjónustu þurfi að fara í alla landsfjórðunga til að fá upplýsingar eða þjónustu hjá þessum ríkifyrirtækjum?