Flutningur ríkisstofnana

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 16:41:56 (1071)

1996-11-12 16:41:56# 121. lþ. 21.16 fundur 17. mál: #A flutningur ríkisstofnana# þál., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[16:41]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að fullyrða að ekki er það af umhyggju fyrir landsbyggðarbúum sem þessi ræða síðasta hv. ræðumanns var flutt heldur er þetta dæmigert þröngt kjördæmapot þingmanns af frekar óvanalegu tagi sem hins vegar skýtur alltaf upp kollinum þegar farið er að ræða um flutning ríkisfyrirtækja út á land. Hv. þm. segir: Af hverju var verið að leggja til að flytja Landhelgisgæsluna suður á Suðurnes? En hv. þm. hefur ekki velt fyrir sér sérstaklega af hverju var verið að staðsetja Landhelgisgæsluna í upphafi í Reykjavík? Þegar við förum í gegnum þennan lista yfir ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki, sem birtist í fjárlagafrv., vaknar auðvitað þessi spurning: Hvers vegna í dauðanum voru þessi tilteknu fyrirtæki og ríkisstofnanir settar niður í Reykjavík? (Gripið fram í: Já, af hverju?) Ég er alveg sannfærður um það og veit að aldrei fór fram nokkur umræða um hvar ætti að staðsetja þessi fyrirtæki einfaldlega vegna þess að menn gengu alltaf út frá því að þegar verið væri að setja niður nýjar stjórnsýslustofnanir skyldu þær vera í landnámi Ingólfs og hvergi annars staðar. Þetta er umræða sem er gjörsamlega ólíðandi og er dæmigerð þegar menn festa sig í klyfjum vanans. Það sem við erum að reyna að gera, við sem erum að fitja upp á að menn reyni að hugsa þessa hluti upp á nýtt og marka sér einhverjar meginreglur, er nákvæmlega það að við spyrjum áleitinna spurninga og segjum: Getur þessi stofnun ekki allt eins átt heima einhvers staðar annars staðar en í Reykjavík? Það væri auðvitað hægt út af fyrir sig að taka almenna umræðu um Landhelgisgæsluna. (Gripið fram í.)

En ég nefndi líka í ræðu minni áðan að einkennilegt væri að jafnvel þegar verið væri að flytja stofnanir nánast milli bæjarhluta á höfuðborgarsvæðinu, og hafði ég þá m.a. í huga þessa Siglingastofnun, var mér kunnugt um að gerðar voru veikburða tilraunir til að gera það tortryggilegt að hún færi frá Hringbrautinni og suður í Kópavog. Það sýnir auðvitað hvað menn geta lotið lágt í þessari umræðu.