Flutningur ríkisstofnana

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 16:44:04 (1072)

1996-11-12 16:44:04# 121. lþ. 21.16 fundur 17. mál: #A flutningur ríkisstofnana# þál., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[16:44]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Menn líta ekki lægra í þessari röksemd en þá sem síðasti ræðumaður kom hér að. Hann talaði ekki um merg málsins. Það eru þeir aðilar sem þurfa að njóta þjónustu ríkisstofnana. Hann minntist ekki einu orði á hana. Ef engir aðilar eru til að leita eftir þjónustu þessara ríkisfyrirtækja hafa þau í sjálfu sér ekkert að gera. En ég veit og ég hef heyrt á fólki sem býr vítt og breitt um landið að því þykir ekki verra að koma til Reykjavíkur og geta á einum og sama stað leitað til þeirra þjónustufyrirtækja ríkisins sem það á erindi við en þurfa ekki, eins og ég sagði áðan, að fara vítt og breitt um landið til að elta uppi þjónustu einstakra ríkisfyrirtækja.

Þegar talað er um gervilausnir á flutningi Siglingastofnunar til Kópavogs, þá getur það vel verið. En væri það gerviflutningur og gerviröksemd að flytja t.d. Siglingastofnun út í Grímsey? Er það gerviröksemd? Af hverju ekki? Hvar ætla menn að marka línur í flutningi ríkisfyrirtækjanna? Hvar á að staðsetja þær? Á að gera það bara á Ísafirði eða bara á Akureyri og Egilsstöðum og Seyðisfirði eða hvað? Er Grímsey þá ekki alveg eins inni í myndinni? Þegar menn eru að tala um að hér séu gerviröksemdir finnst mér þeir koma aftan að sjálfum sér í málflutningnum. Það getur hins vegar vel verið að ýmis ríkisfyrirtæki eigi eftir að fæðast og eðlilegt sé að staðsetja þau úti á landi. En ég held þó að þróun og sá málflutningur sem verið hefur í mínum flokki og hv. 1. þm. Vestf., Einars K. Guðfinnssonar, hefur tekið þátt í hafi verið að bæta ekki við ríkisfyrirtækjum. Þess vegna finnst mér nú ein gerviröksemdin enn koma fram hjá honum þegar hann ætlar að fara að horfa til framtíðar og (Forseti hringir.) ef ný ríkisfyrirtæki verða til að þá verði þau staðsett úti á landi. En meginmálið er þetta: Það eru gerviröksemdir (Forseti hringir.) að gleyma þeim sem þjónustunnar þurfa að njóta.