Flutningur ríkisstofnana

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 16:46:30 (1073)

1996-11-12 16:46:30# 121. lþ. 21.16 fundur 17. mál: #A flutningur ríkisstofnana# þál., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[16:46]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þar sem hv. þm. festi sig í er stundum kallað nauðhyggja. Hann telur að vegna þess að þróunin sé einhvern tímann á einn veg verði hún aldrei stöðvuð. Þess vegna telur hv. þm. það einhvers konar þjóðfélagslegt náttúrulögmál að fólk flytji hingað inn á þetta svæði og geti ekki annað. Hvers vegna ættu Reykvíkingar að fara frá Reykjavík, var spurt fyrr í umræðunni. Ætli einhver hluti skýringarinnar á búsetuflutningunum á landsbyggðinni sé ekki sú staðreynd að ríkisfyrirtækjum og ríkisstofnunum hefur verið valinn staður hér á höfuðborgarsvæðinu? Hversu stór hluti af atvinnustarfseminni á þessu svæði er til kominn einmitt vegna þess? Hversu margir íbúar landsbyggðarinnar standa frammi fyrir ákvörðun sem þeir geta ekki annað en tekið þegar þeir velja sér búsetu í Reykjavík einfaldlega vegna þess að þjónustunni er allri fyrir komið hér. Menntunartækifærin eru hér. Atvinnutækifærin eru hér. Vegna þess að ríkið, stærsti vinnuveitandi landsins, hefur ákveðið að langsamlega stærsti hlutinn af atvinnutækifærunum skuli vera hér. Það er alveg hárrétt athugasemd hjá hv. þm. að stærsti hluti þjóðarinnar býr hér og m.a. af þessum ástæðum. Nú spyr ég hv. þm. að því hvort hann telji þá eðlilegt, vilji hann vera sjálfum sér samkvæmur, að flytja þær fáu ríkisstofnanir sem eru til úti á landi til Reykjavíkur. Ég nefni t.d. starfsemi eins og Skógræktina, veiðistjóraembættið og og ég man ekki eftir miklu fleiri fyrirtækjum í svipinn. En ég spyr hv. þm. hvort hann vilji hann marka þá (Forseti hringir.) stefnu að færa þessi ríkisfyrirtæki til baka til Reykjavíkur.