Flutningur ríkisstofnana

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 16:57:58 (1075)

1996-11-12 16:57:58# 121. lþ. 21.16 fundur 17. mál: #A flutningur ríkisstofnana# þál., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[16:57]

Árni Steinar Jóhannsson:

Herra forseti. Ég fagna fram kominni tillögu um flutning ríkisstofnana. Ég vil þó segja að mér finnst umræðurnar bera vott um það sem ég hef haldið fram lengi og hef sannfærst um það enn þá frekar í dag að íslensk stjórnsýsla er heltekin af miðstýringaráráttu og hefur verið um áratuga skeið. Auðvitað eru tilhneigingar til þess að færa út aftur, það er bara afleiðing af því sem hefur farið ranglega í tímans rás og þess vegna hljótum við að fara dýpra ofan í þessi mál og tala ekki bara um Landmælingar Íslands heldur að fara í aðferðafræði. Ég fagna þessari tillögu vegna þess að ég held að það hafi verið svo rétt sem kom fram hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að við verðum að horfa á Ísland í nýju ljósi. Það er 1996 og ekki er þörf á því að vera með þvílíka miðstýringu sem hér ríkir og við verðum að brjóta hana upp.

Þessi viðbrögð við því að flytja ríkisstofnanir út á land, almennt séð, verða til þess að menn horfa kannski ekki fram á við og setja hlutina ekki í samhengi. Það er fyrst og fremst ástæða til þess eins og hefur komið fram hjá fleirum að athuga þessar ríkisstofnanir og sjá til hvernig væri kannski hægt að koma þeim fyrir öðruvísi og hvernig væri hægt að veita þjónustu þeirra og reka starfsemi þeirra á annan hátt. En sú umræða fer aldrei fram vegna þess að frá miðstýrðu kerfi er flutningur ríkisstofnana út á land pólitísk aðgerð, ég er sammála því eins og hér hefur komið fram. Menn verða ánægðir, ég fæ þessa stofnun til mín, sjö ný störf, leigu á húsnæði. Þetta er á allt of lágu plani. Við verðum að fara í umræðuna í miklu víðara samhengi og þetta varðar stjórnsýsluna alla. Það er hlutverk þingsins. Það er ekki hlutverk okkar hér og það er dæmigert fyrir þetta miðstýrða kerfi að menn fara í hár milli kjördæma hver fær í þetta skiptið og hver fær ekki. Umræða verður að fara fram um stjórnsýsluna á öllum stigum. Hvernig ætlum við að deila út völdum og hvernig ætlum að reka nýtísku, nýmóðins samfélag. ,,Central``-stýrt kerfi sem flytur kansellíið frá Kaupmannahöfn og byggir á miðstýringu gerir það að verkum að þjóðin getur ekki efnast og við erum að súpa seyðið af slíku. Það tók Nígeríumenn 20 ár að eyðileggja innviði landsins eftir að þeir fluttu sína stjórnsýslu frá London til Lagos eins og við vitum. En þjóð okkar er blessunarlega betur menntuð þannig að enn um stund höfum við í okkur og á.

[17:00]

En þessi umræða verður að fara fram, eins og ég segi, hér í þinginu. Hvers vegna t.d. á að vera Vegagerð ríkisins? Ég nefni hana bara sem dæmi. Við hliðina á Vegagerð ríkisins á Akureyri er tæknideild bæjarins sem er fullfær um að byggja brú, við hliðina á Vegagerð ríkisins sem byggir brú á sömu á. Af hverju ekki að skoða þetta í nýju ljósi og deila út völdum og verkefnum á raunhæfan hátt með minnkun á umsvifum þessa miðstýrða kerfis sem hér er. Það er mergurinn málsins og það er hlutverk þingsins að fara í þessi mál neðan frá, veita þjónustu heima fyrir. Gera það að verkum að menn geti unnið að þessum málum heima fyrir. Okkar verkfræðingar hjá Akureyrarbæ t.d., úr því ég nefndi Vegagerð ríkisins, eru alveg jafngóðir og verkfræðingar Vegagerðar ríkisins. Þeir vinna meira segja saman. Hvað með skipulagsmál? Vilja menn áfram hafa Skipulag ríkisins sem skipuleggur hér um bil um allt land? Ég fullyrði að svæðisbundnar skipulagsstofur eru fullfærar um að fara eftir skipulagslögum sem hér eru sett og e.t.v., svo ég nefni dæmi sem ég þekki, er ekkert mál fyrir skipulagsstofu Akureyrar að umbreyta sér í skipulagsstofu Eyjafjarðarsvæðis eða Norðurlands eystra. Af hverju ekki? Þarna erum við að tala um grunnbreytingar sem gera það að verkum að menn fá störf heima fyrir og hafa ábyrgð á því sem þeir eru að gera í daglega lífinu. En þetta vill þessi stofnun greinilega ekki. Hún vill hafa þessi völd og þessi áhrif og deila út og það verður til þess að menn koma alltaf að vestan og norðan og af Norðurlandi eystra og austan til þess að fá þjónustu. Þetta er óheilbrigt kerfi og ofan af þessu verður að vinda. Þess vegna lýsi ég eftir umræðum um aðferðafræði, miklu frekar heldur en að rífast svona og tosast um einstakar stofnanir eða einstaka mál. Þetta er miklu, miklu stærra dæmi.

Ég ætla aðeins að koma inn á þriðja stjórnsýslustigið af því minnst var á það. Það er algjörlega nauðsynlegt ef vilji er fyrir því hér að ná sameiningu sveitarfélaga. Þriðja stjórnsýslustigið var þessi samnefnari sem hægt var að koma á til að fá raunhæfa sameiningu þó að innan svæðisins væru margir hreppar. Og þeir sem þekkja til þessara mála vita vel að regnhlíf þriðja stjórnsýslustigsins yfir heilu héruðin hefði haft öll mikilvægustu málin. En þetta vildu menn ekkert fara í hér. Þeir vildu ekkert skoða þessi mál. Kannski er það vegna þess að menn er algjörlega fastir í miðstýringu og vilja ekki gefa frá sér völdin. Ef við getum ekki horft fram á nýja öld með grundvallarbreytingum á leikreglum þá efnumst við ekki. Þetta eru mín skilaboð til þingsins. Þjóðin getur ekki efnast ef hér á eina ferðina enn, með auknum framkvæmdum t.d., að stunda fólksflutninga í þúsundavís þar sem fjárfesting til grunnþarfa skiptir milljörðum. Það er ekki hægt. Við sjáum bjart fram undan ef við förum í grunnvinnu og ég krefst þess að þingið fari í aðferðafræðilega grunnvinnu.