Flutningur ríkisstofnana

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 17:37:01 (1079)

1996-11-12 17:37:01# 121. lþ. 21.16 fundur 17. mál: #A flutningur ríkisstofnana# þál., KHG
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[17:37]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Mér vannst ekki tími til þess áðan í fyrri ræðu minni að fjalla um þriðja stjórnsýslustigið og það í samhengi við flutning ríkisstofnana og hlutverk ríkisins og starfsemi þess. Ég vil benda á að það eru ekki andstæður að dreifa starfsemi ríkisins um landið annars vegar og þriðja stjórnsýslustigið hins vegar. Með öðrum orðum tel ég ekki að menn eigi að gera annað og láta hitt vera. Mín skoðun er sú að menn eigi að gera hvort tveggja, menn eiga bæði að haga og skipuleggja starfsemi ríkisvaldisins þannig að hún sé sæmilega dreifð um landið og menn eiga einnig að koma upp þriðja stjórnsýslustiginu. Það eru nefnilega ekki sömu hlutirnir uppi á borðinu þegar við erum að tala um þriðja stjórnsýslustigið sem er vald heima í héraði, sem mönnum þar, kosnum eftir lýðræðislegum leikreglum, er falið samkvæmt lögum, og þeir fara með það vald og leysa úr þeim verkefnum sem þeim eru falin með þeim lögum. Það er þriðja stjórnsýslustigið. En ríkisstofnanir eða ríkisstarfsemi í einstökum byggðarlögum úti um land er ekki það sama. Því það er starfsemi á vegum ríkisins og undir stjórn miðstjórnarvaldsins hér í Reykjavík, þar sem þeir sem starfa við að inna af hendi einstaka þætti í starfsemi ríkisins lúta valdi hinna sem yfir þá eru settir og eru hér í Reykjavík. Það er nefnilega tvennt ólíkt.

Reynslan kennir okkur það að starfsemin hefur tilhneigingu til að verða þar sem ákvörðunarvaldið er. Stofnanirnar stækka þar sem ákvörðunarvaldið er, þær stækka ekki á öðrum stöðum. Þeir sem hafa ráðið hér um hvernig ríkisbúskapurinn hefur þróast á undanförnum áratugum hafa byggt hann upp þar sem þeir sjálfir hafa búið og starfað en ekki þar sem einhverjir aðrir hafa búið. Ég hygg að það verði ákaflega erfitt að breyta því nema að nota þessa aðferð þannig að fela öðrum ákvörðunarvald þar sem þeir búa annars staðar. Þá byggja þeir upp starfsemi þar sem þeir eru undir þau verkefni sem þeim eru falin af því þeir taka ákvörðunina en ekki aðrir sem eru hér við miðstjórnarvaldið. Þetta vildi ég leggja áherslu á.

Ég get nefnt sem dæmi um fremur hraklega reynslu af því að hafa ákvörðunarvaldið hér í miðstýrðri ríkisstofnun en setja upp starfsemi úti á landi út frá þeirri ríkisstofnun. Þar á ég við Ríkisútvarpið. Til þess að dreifa starfsemi þeirrar stofnunar út á land hafa menn ákveðið að setja upp svæðisútvörp á þremur stöðum á landinu. Svæðisútvörp sem starfa auðvitað undir stjórn yfirstjórnar Ríkisútvarpsins. Og hvert er hlutverk svæðisútvarpsins í dag? Það er ekkert annað en að segja fréttir af staðbundnum svæðum, af málefnum sem gerast einvörðungu á ákveðnum svæðum og annars staðar helst ekki. Það er ákaflega fátítt að þeim sem sjá um svæðisútvörpin sé falið það verkefni að fjalla um einstök þjóðmál út frá sínum sjóndeildarhring og sínum viðhorfum og varpa sinni sýn á þau mál. Það er vegna þess að þeir sem stýra þessum málum, fréttastofan, er hér í Reykjavík, hún vill gera þessa hluti sjálf út frá sínum viðhorfum. Þess vegna fáum við umfjöllun margra þjóðmála á þann veg að þau eru skýrð af mönnum með þessi viðhorf hér úr miðstjórnarvaldinu. Ég nefni sem dæmi umræðuna um veiðileyfagjald. Ætli sú umræða hefði ekki verið eitthvað öðruvísi ef þeim sem starfa á svæðisútvörpum hefði verið leyft að fjalla um það mál, búa til fréttaefni um það málefni, kalla til viðtals menn og fjalla um það á sínum stöðum og útvarpa því yfir landið allt en ekki bara útvarpa því yfir sitt hlustunarsvæði? Þetta er hraksmánarlegt dæmi um meðferð miðstjórnarvalds á útstöðvum eða starfsemi stofnana úti á landi. Ég held að þurfi að verða breyting á afstöðu Ríkisútvarpsins til starfsemi svæðisútvarpanna ef ekki á að kyrkja þá starfsemi algerlega á næstu árum.

Þeim mönnum, sem eru andsnúnir þriðja stjórnsýslustiginu með þeim rökum að með því sé verið að auka heildarkostnaðinn við stjórnsýsluna, bendi ég á það að þriðja stjórnsýslustigið býr ekki til neitt nýtt ákvörðunarferli eða nein ný verkefni á því sviði. Það færir bara ákvörðunarstaðinn til, þannig að þangað sem hann er færður, þar verður byggð upp starfsemi og á móti hverfur starfsemi annars staðar. Þannig á ekki að verða nein aukning í stjórnsýslunni eða neitt dýrara að reka hana fyrir það að hún sé dreifð á fleiri staði þar sem menn taka á hverjum og einum stað ákvarðanir um þau málefni sem þeim er ætlað. Ég vísa því þeirri gagnrýni alveg á bug enda er athyglisvert að það eru fyrst og fremst sveitarstjórnarmenn, og einkum af höfuðborgarsvæðinu, sem eru andsnúnir þriðja stjórnsýslustiginu. Það er mjög athyglisvert. Þeir vita sem er að það færir valdið frá þeim og auðvitað, eins og aðrir sem hafa vald, þá leggjast þeir gegn breytingum sem rýra þeirra stöðu. En menn verða að horfa á málið út frá hagsmunum landsmanna, taka ákvarðanir sem styrkja stöðu þeirra á hverjum og einum stað.

Herra forseti. Ég hygg að ég þurfi ekki að bæta miklu við þessa umræðu um þriðja stjórnsýslustigið og flutning ríkisstofnana. Ég legg að endingu áherslu á að það eru ekki andstæð málefni heldur hvort á sínu sviði. Og jafnvel þótt menn kæmu upp þriðja stjórnsýslustiginu þá eiga menn eftir sem áður að dreifa starfsemi ríkisvaldsins. Jafnvel þótt sú starfsemi yrði eitthvað minni í sniðum eftir að þriðja stjórnsýslustigi væri komið á legg þá er engin ástæða til annars en að hafa sæmilega dreifingu á þeim hlutum eins og menn tala um að óbreyttu.