Endurskoðun á launakerfi ríkisins

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 18:07:27 (1082)

1996-11-12 18:07:27# 121. lþ. 21.17 fundur 32. mál: #A endurskoðun á launakerfi ríkisins# þál., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[18:07]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Hér liggur fyrir tillaga um að fjmrh. skipi nefnd til að endurskoða launakerfi ríkisins í þeim tilgangi að einfalda það, taka inn í það yfirborganir og aukagreiðslur og endurskoða röðun. Nefndinni verði einkum ætlað að benda á leiðir til að hækka lægstu laun. Efnislega get ég tekið undir markmið þessa tillöguflutnings þó að ég hafi takmarkaða trú á þeirri nefndarskipun sem hér er lögð til. Ég veit að vísu að þegar samningar ríkisstarfsmanna hafa verið til umfjöllunar og ég er náttúrlega ekki ein um þá vitneskju, það vita allir sem með mér hafa verið í samninganefndum ríkisstarfsmanna á undanförnum árum, þá hefur fyrirstaðan verið hvað hörðust hjá samninganefnd ríkisins þegar rætt er um að gera akkúrat þetta. Í fyrsta lagi að hækka lægstu laun og í öðru lagi að hækka grunnlaun, færa aukagreiðslur inn í grunnlaun. Þetta hefur verið eitur í þeirra beinum.

Ég tel það vera sjálfsagða leið að fjalla um leiðir til að ná þeim markmiðum sem hér hafa verið tilgreind í kjarasamningum sem nú standa fyrir dyrum og veit ég reyndar að opinberir starfsmenn eru nú þegar að brýna kutana með einmitt þessa hluti að leiðarljósi. Það liggur ljóst fyrir að á undanförnum árum hefur mjög sigið á ógæfuhliðina hvað varðar launajafnrétti innan opinbera geirans. Það fólk sem vinnur á strípuðum töxtum ber mjög skarðan hlut frá borði meðan aðrir hafa náð að bæta stöðu sína með sérsamningum af ýmsu tagi þar sem samið er um bílastyrki, ómælda yfirvinnu og fleira. Því miður er það staðreynd að það fólk sem situr eftir á strípuðum töxtunum er að stórum hluta konur sem virðast ekki eins harðar að ná sérstökum samningum fyrir sig og karlarnir.

Þar með hefur enn aukist sá launamunur kynjanna sem hefur reynst erfitt að kveða niður þrátt fyrir virðuleg fyrirheit á þá vegu en það verður varla hér eftir, a.m.k. eftir nýlegar yfirlýsingar hjá valdamesta flokki landsins. Ég held að það sem hafi kannski farið mest fyrir brjóstið á þeirri þingkonu, sem hér stendur, sé að launamunur kvenna og karla virðist hafa aukist eftir því sem menntun eykst en sem gamall grunnskólakennari hef ég löngum staðið og hvatt þær stúlkur, sem hafa verið í minni umsjá, til að afla sér endilega menntunar, þar með gætu þær staðið jafnfætis körlunum en því miður hafa málin ekki enn þróast á þann veg.

Ég held að það verði sérstaklega að hafa auga með þeirri grein sem var samþykkt á sl. vori um vald sem yfirmönnum stofnana var veitt til að greiða sérstakan launaauka til útvalinna starfsmanna því að þetta er einmitt það sem hefur gerst á undanförnum árum. Sporslur hafa verið greiddar til þeirra sem hafa verið sérstaklega í náðinni og hinir hafa gleymst. Þarna er akkúrat búið að lögleiða þessa aðferð og það væri einmitt eins og hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir sagði hér, fróðlegt að heyra hvort ríkisstarfsmenn hafa fundið upp þarna einhvern krók á móti bragði og hvort þeir geta kannski nýtt sér þessa grein sér til hagsbóta.

Í komandi kjarasamningum liggur fyrir að það þarf að gera mikinn uppskurð á launakerfi ríkisins á þann veg sem lagt er til í þáltill. Ég hef trú á að ókynbundið starfsmat, eins og flutningsmenn þeirrar tillögu sem hér er til umræðu hafa áður lagt til, gæti orðið mjög til hagsbóta. Ríkið getur að sjálfsögðu ekki greitt því fólki sem vinnur fullan vinnudag á þess vegum, jafnvel þó ófaglært sé, laun sem eru undir framfærslukostnaði einstaklings og liggur það þá fyrst fyrir eins og áður hefur verið bent á á hinu háæruverðuga Alþingi að það þarf þá að finna út óumdeilanlega hver sá framfærslukostnaður er. Ég sé ekki aðra leið til þess að gera launakerfi ríkisins réttlátara en það sé stokkað upp á nýtt, kerfið gert einfaldara og gagnsærra og sem flestar aukagreiðslur séu teknar inn í grunnlaun og þó með það sem aðalmarkmið að enginn sem starfar hjá ríkinu í fullu starfi fari með í launaumslaginu sínu laun sem fyrir liggur að ekki er hægt að lifa af.