Endurskoðun á launakerfi ríkisins

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 18:20:35 (1084)

1996-11-12 18:20:35# 121. lþ. 21.17 fundur 32. mál: #A endurskoðun á launakerfi ríkisins# þál., Flm. KÁ
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[18:20]

Flm. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þeim tveimur þingmönnum sem hafa tekið til máls. Vissulega hefði verið ástæða til að hafa langa og ítarlega umræðu um launakerfi ríkisins og hvernig beri að taka á því og hvert beri að stefna í þeim efnum. En dagur er að kvöldi kominn og hér hefur átt sér stað mikil umræða í allan dag. Við höfum mátt sætta okkur við það, þingmenn, að margir eru farnir þegar kemur að málum sem mér finnst vera spennandi og mikilvæg.

Hvað varðar það sem fram kom hjá þessum tveimur þingmönnum, þá lýstu þeir ákveðinni vantrú á þeirri leið sem hér er farin. Ég get tekið undir það meginmarkmið að auðvitað eiga stéttarfélög að semja um sín mál. En það sem verið er að leggja til er að menn skoði einhvers konar kerfisbreytingu. Menn fari markvisst í gegnum kerfi ríkisins, hvernig það er uppbyggt, hvernig það er í raun og veru og það sé yfirsýn á einum stað. Við erum með fjölda stéttarfélaga hjá opinberum starfsmönnum og misjafnt er hvort samið er fyrir heildina eða hvort það eru sérsamningar. Ég held að afar mikilvægt sé t.d. að það sé ákveðið samræmi þannig að hægt sé að auka réttlæti og draga úr launamun. Ég vil ganga lengra en hv. þm. Ögmundur Jónasson, sem segir að verið sé að eyðileggja launakerfið. Mér finnst að búið sé að eyðileggja það. Mér finnst þetta vera handónýtt kerfi sem byggist upp á miklum duldum greiðslum og aukagreiðslum þó auðvitað sé unnin mikil yfirvinna og við skulum ekki gleyma því. Það er margt fólk sem vinnur mikla yfirvinnu, vaktavinnu og alls konar yfirvinnu, t.d. á spítölunum, stundum vegna þess að fólk kemst ekki heim vegna þess að það er enginn til að leysa það af. (Gripið fram í: Lögreglan.) Lögreglan, já. Það eru margar stéttir sem vinna mikla yfirvinnu. Og eins má ekki rugla saman greiðslum sem eru greiðslur fyrir raunverulegan kostnað eða óunna yfirvinnu sem við vitum að er til staðar. Þetta kerfi er því að mínum dómi komið í þvílíkar ógöngur að ekki verður hjá því komist að stokka það upp.

Aðeins hvað varðar launamuninn og það sem fram kom í máli hv. 8. þm. Reykn. Hún nefndi að konur væru ekki eins harðar í samningum. Ég vil bara mótmæla þessu. Við höfum horft upp á hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, meinatækna í hörkudeilum þar sem þær hafa sýnt svoleiðis ótrúlega samstöðu og hörku að maður undrast það. Ég hef dáðst að þeim fyrir þrautseigjuna og vissulega hafa þær náð fram töluverðum kjarabótum, ekki síst hjúkrunarfræðingarnir og meinatæknarnir. (Gripið fram í: Sjúkraliðarnir.) Og sjúkraliðarnir líka já, það er rétt. Þeir náðu líka fram töluverðum bótum. Kannski eru það kennararnir sem því miður hafa ekki eins sterka stöðu einhverra hluta vegna.

Það er hárrétt hjá hv. þm. að launakannanir hafa leitt í ljós að menntun hefur skilað konum miklu minna í launaumslagið en körlum. Þetta er ein af þeim þversögnum og eitt af því sem sýnir hvernig samfélagið er uppbyggt. En við megum passa okkur á því að senda ekki þau skilaboð út að menntun borgi sig ekki. Auðvitað hefur menntunin skilað okkur alveg geysilega miklu. Hún hefur skilað okkur meiri lífsgæðum og opnað fyrir okkur veröldina, vil ég meina, og gefið okkur marga nýja möguleika. Konur hafa farið inn á ýmsar nýjar brautir og við megum alls ekki vanmeta menntunina. Við vitum að aukin og bætt menntun er grunnurinn að betra og réttlátara þjóðfélagi. En vissulega er rétt að þarna þarf að taka á. Það þarf að knýja fram breytingar. Og nú hefur það gerst að meira að segja Sjálfstfl. hefur samþykkt taka þurfi á launamun kynjanna og var ekki seinna vænna að þeirra augu opnuðust. Ég fagna því auðvitað og við eigum þá von á stuðningi úr þeirri átt. Menn verða að láta verkin tala og sýna að þeir vilji breytingar í raun.

Hæstv. forseti. Það má segja að örlítill ágreiningur sé uppi um aðferðina sem felst í þessari tillögu. En ég segi fyrir mig að ég mundi hreinlega ekki treysta því að einhverjar grundvallarbreytingar kæmu út úr kjarasamningum fyrr en eftir langa mæðu vegna þess einfaldlega hvernig er hugsað á þeim bæ. Ég held því að mikil þörf væri á að nefnd settist yfir þetta mál og gerði samanburð og tillögur um hvernig megi breyta launakerfinu. Hv. þm. Ögmundur Jónasson hristir höfuðið og hefur heldur ekki trú á að nefnd gæti skilað árangri. En ég vil nú trúa því, kannski þarf að skipa hana öðruvísi, það má vera. Þessi tillaga er flutt til að vekja athygli á því að það þarf að taka á þessum málum. Uppstokkun þarf að eiga sér stað og ef hv. þm. treystir sér til að knýja fram breytingar í kjarasamningum fagna ég því.