Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 19:08:05 (1092)

1996-11-12 19:08:05# 121. lþ. 21.22 fundur 97. mál: #A almenn hegningarlög# (vernd gegn mismunun) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[19:08]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á almennum hegningarlögum sem snýr að vernd gegn mismunun.

Samkvæmt gildandi löggjöf telst það ekki refsiverð háttsemi ef aðili í atvinnurekstri eða þjónustustarfsemi mismunar fólki og neitar manni um þjónustu eða aðgang að samkomustað af þeirri ástæðu einni hver litarháttur hans er eða vegna þess að hann er samkynhneigður. Íslensk stjórnskipan og stjórnarfar eru byggð á þeirri grundvallarreglu að allir séu jafnir fyrir lögunum og skuli njóta jafnræðis án tillits til kynþáttar, litarháttar, trúarbragða og sambærilegra atriða. Þessi jafnræðisregla birtist skýrlega í 65. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. stjórnsýslulaga. Þrátt fyrir þetta eru engin haldbær úrræði til staðar fyrir einstakling sem verður fyrir því að annar einstaklingur eða fyrirtæki mismuni honum á þessum grundvelli. Einmitt við þessar kringumstæður er hættast við að óvild og fordómar fólks í garð ýmissa minnihlutahópa í þjóðfélaginu birtist og er sérstaklega rík þörf á að reyna að uppræta slíka háttsemi.

Því miður þekkjum við dæmi þess hér á landi að fólk sem tilheyrir ákveðnum minnihlutahópum, svo sem samkynhneigðir og fólk af erlendum kynþáttum, hafi þurft að þola mismunun af þessu tagi. Refsiákvæði sambærilegt því sem birtist í 1. gr. frv. var lögfest á öðrum Norðurlöndum í kringum 1970 vegna aðildar þessara landa að samningi Sameinuðu þjóðanna frá 1965 um afnám alls kynþáttamisréttis. Meðal skuldbindinga sem samningurinn leggur skýlaust á herðar aðildarríkja er að þau tryggi mönnum jafnan rétt til aðgangs að öllum stöðum eða þjónustu sem veitt er almenningi svo sem samgöngutækjum, hótelum, veitingahúsum, kaffihúsum, leikhúsum og almenningsgörðum.

Ísland er aðili að samningnum um afnám alls kynþáttamisréttis en aðild að samningnum leiddi þó ekki til sambærilegra breytinga á íslenskri refsilöggjöf. Aðild að samningnum var þó tilefni til að bæta nýju ákvæði í almennu hegningarlögin, 233. gr. a., sem gerir refsivert að ráðast opinberlega með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt á hóp manna vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar eða trúarbragða.

Umræða um hvernig unnt er að vernda einstaka menn gegn mismunun með löggjöf hefur hins vegar vaxið á undanförnum árum hér á landi. Með þessu frv. er ráðgert að auk þjóðernis, kynþáttar, litarháttar og trúarbragða, verði kynhneigð talin meðal þeirra atriða sem refsivert er að byggja mismunun á í þjónustustarfsemi eða atvinnurekstri, sbr. 1. gr. frv. Samhliða þessu er ráðgert í 2. gr. frv. að kynhneigð verði bætt í talningu á atriðum í 233. gr. a., almennra hegningarlaga. Fram til þessa hefur lítt reynt á 233. gr. a. í tengslum við kynþáttamisrétti eða árásir sem gerðar eru opinberlega á minnihlutahópa sem taldir eru í ákvæðinu og fela í sér háð, róg, smánun, ógnun eða sambærilegar athafnir. Hins vegar felst í þessari breytingu á hegningarlögunum skýr yfirlýsing um ótvíræð réttindi samkynhneigðra til fullrar aðildar að íslensku samfélagi.

Ég vil einnig vekja athygli á b-lið 2. gr. frv. þar sem lögð er sú viðbót við 233. gr. a. að refsinæmi verknaðar sé ekki aðeins bundið við að opinberlega sé ráðist á hóp manna heldur er einstaklingum sem tilheyra slíkum hópum einnig veitt refsivernd berum orðum.

Herra forseti. Með samþykkt á þessu frv. verður stigið mikilvægt skref til að tryggja frekari mannréttindi í landinu með því að veita jafnræði manna sérstaka refsivernd og veita lagaleg úrræði þeim sem þurfa að þola kynþáttamisrétti eða mismunun af öðrum ástæðum.

Ég hef nú gert grein fyrir aðalefni frv. og legg til að því verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umræðu og til meðferðar hjá hv. allshn.