Lögræðislög

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 19:11:56 (1093)

1996-11-12 19:11:56# 121. lþ. 21.23 fundur 49. mál: #A lögræðislög# (sjálfræðisaldur) frv., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[19:11]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögræðislögum sem ég flyt ásamt hv. þm. Guðnýju Guðbjörnsdóttur.

Í frumvarpi þessu leggja flutningsmenn til að sjálfræðisaldur barna verði hækkaður úr 16 árum í 18 ár.

Hækkun sjálfræðisaldurs hefur verið til umræðu á Íslandi um árabil og fagfólk verið mjög á einu máli um að hann beri að hækka.

Helstu rökin fyrir þessari lagabreytingu eru þau að lögin taki mið af breyttum þjóðfélagsaðstæðum, séu í samræmi við það sem tíðkast í nágrannalöndum okkar, miði að auknu lagasamræmi í íslenskum rétti, tryggi betur að ungt fólk búi við öryggi og aðhald foreldra til 18 ára aldurs og að auðvelda meðferð á ungum fíkniefnaneytendum.

Ég tel, virðulegi forseti, að þrýstingurinn á að sjálfræðisaldurinn verði hækkaður fari vaxandi um þessar mundir. Ekki síst kemur sú ósk frá fagfólki sem vinnur að málefnum ungmenna, nú síðast í tengslum við fréttir um að hópur unglinga væri í harðri fíkniefnaneyslu. Ég tel að hækkun sjálfræðisaldurs sé vissulega mikilvæg til þess að auðvelda meðferð ungra fíkniefnaneytenda sem ella gætu neitað henni eins og nauðsynlegri meðferð á lokuðum deildum fyrir þá sem eru í harðri neyslu.

Ýmsir hafa haldið því fram að rökin varðandi unga fíkniefnaneytendur réttlættu þó ekki að svipta stóran hóp unglinga réttindum til sjálfræðis við 16 ára aldur til að vernda fámennan hóp, eins og þeir segja, ungmenna sem lent hafa í vandamálum.

Ekki má gleyma að rökin fyrir hækkun sjálfræðisaldurs eru miklu fleiri en að auðvelda meðferð ungra fíkniefnaneytenda. Árin frá 16--18 ára aldurs eru mikilvæg ár í þroska og félagsmótun barna. Inntak forsjárskyldu er uppeldisskylda. Með því að hækka sjálfræðisaldurinn í 18 ár er verið að framlengja forsjárskyldu foreldra sem miðar gagngert að því að auka öryggi barna og undirstrika sameiginlega ábyrgð barnsins, foreldra og samfélagsins alls.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna kveður á um að barn á rétt á umsjá foreldra sinna til 18 ára aldurs. Barnasáttmálinn, sem er brjóstvörn mannréttinda barna, mælir fyrir um réttindi og vernd barna aðildarríkjanna. Hugsunin á bak við 1. gr. samningsins er sú að skapa varnarmúr umhverfis réttindi barna til 18 ára aldurs, samtímis því að leggja ábyrgð á herðar foreldra og samfélagsins alls gagnvart ungviði þjóðanna. Hækkun sjálfræðisaldurs er því framlenging á ábyrgð og skyldum foreldra, forráðamanna og samfélagsins í heild gagnvart börnum.

Sextán ára sjálfræðisaldur gengur líka, að mínu mati, gegn lögum um vernd barna og ungmenna en markmið þeirra er að styrkja uppeldishlutverk fjölskyldunnar og beita úrræðum til verndar börnum þegar við á.

Hækkun sjálfræðisaldurs er því ekki fyrst og fremst úrræði vegna barna sem búa við vandamál og þurfa á meðferðarúrræðum að halda. Ekki síður mun hækkun sjálfræðisaldurs tryggja öryggi og vernd allra barna til 18 ára aldurs. Auðvitað geta verið á því undantekningar ef börn búa við slæmar heimilisaðstæður en á því þarf þá að taka sérstaklega.

[19:15]

Það þekkja allir að þjóðfélagsaðstæður hafa gjörbreyst frá því að 16 ára reglan var innleidd í lög. Börn eru háðari foreldrum sínum efnahagslega en áður var raunin með auknum kröfum um menntun og færni í nútímasamfélagi. Nú búa 80--90% barna á aldrinum 16--18 ára í foreldrahúsum. Lengri skólaganga hefur almennt þýtt að ungmenni verða að treysta á að foreldrar sjái fyrir þeim lengur en áður tíðkaðist. Einnig hefur aukið atvinnuleysi á undanförnum árum gert það að verkum að atvinnuleysi meðal ungmenna hefur aukist. Það hefur haft þær afleiðingar að möguleikar barna og ungmenna til að standa á eigin fótum og vera efnahagslega sjálfstæð hafa minnkað. Börn þurfa því lengri tíma til að aðlagast sjálfræðisaldrinum en til 16 ára.

Það er líka þversagnarkennt að foreldrar eru forsjárskyldir gagnvart börnum sínum til 16 ára aldurs en framfærsluskyldir til 18 ára aldurs en þá verða þau fjárráða og lögráða. Það eitt út af fyrir sig mælir með því að sjálfræðisaldurinn og framfærsluskylda foreldra fari saman. Einnig er það íhugunarefni að greiðslum barnabóta til foreldra skuli ljúka við 16 ára aldur barns en ekki við 18 ára þegar börn verða fjárráða.

Því er líka stundum haldið fram að á þessum aldri gangi börn í gegnum ákveðið mótþróaskeið þar sem oft reynir mjög á foreldra að gegna upprunaskyldu sinni og sýna börnum sínum nauðsynlegan aga og aðhald. Einmitt á þessu viðkvæma mótunarskeiði barna öðlast þau sjálfræði sem gerir foreldrum erfitt um vik að hafa eftirlit með útivist og skólagöngu ungmenna eða beita þau aga ef þau leiðast á villigötur. Á það ber því einnig að líta að framlenging á forsjárskyldu foreldra um tvö ár sem eru svo mikilvæg fyrir þroska barna, felur í sér aukna vernd, öryggi og aðhald fyrir börnin.

Virðulegi forseti. Þetta mál var til umræðu á síðasta þingi og var þá sent til umsagnar fjölmargra aðila. Flestir þeir sem fengu málið til umsagnar voru mjög jákvæðir og fluttu fyrir því mjög sterk rök að það bæri að hækka sjálfræðisaldurinn. Má þar nefna Samband ísl. sveitarfélaga, Barnaverndarráð, Meðferðarstöð ríkisins fyrir unglinga, lögreglustjórann í Reykjavík, Landssamtökin Heimili og skóla, umboðsmann barna, Barnaheill og Barnastofu. Það væri út af fyrir sig ástæða til að fara yfir þessar umsagnir vegna þess að þær eru margar hverjar mjög fróðlegar og styrkja mjög að hækka beri sjálfræðisaldurinn umfram það sem kemur fram í þessari greinargerð.

Greinargerð umboðsmanns barna er mjög gagnleg fyrir það starf sem fer fram í nefndinni um þetta mál. Umboðsmaður barna bendir á ýmis lagaákvæði í öðrum lögum sem þurfi að skoða samhliða þessari lagabreytingu sem ég ætla ekki að fara nánar út í. En umboðsmaður barna bendir á að samfara breytingum á lögræðislögum um hækkun sjálfræðisaldurs sé ástæða til að tryggja í lögunum rétt barna til að tjá sig um persónuleg málefni sín og jafnframt að réttmætt tillit skuli tekið til skoðana þeirra eftir aldri þeirra og þroska.

Það er líka full ástæða til þess að benda á að í lögum um umboðsmann barna sem eru nýleg, er kveðið á um, að mig minnir í 1. eða 2. gr., að með börnum er í lögunum þar átt við einstaklinga til 18 ára aldurs.

Það sem ekki er tekið á í þessu frv. og þarf að skoða við meðferð málsins í nefnd er yfirgangstímabilið sem skapast ef frv. þetta verður samþykkt. Sjálfræði verður vitaskuld ekki tekið frá þeim sem eru á bilinu 16--18 ára og hafa öðlast fullt sjálfræði fyrir gildistöku laganna. Frá þessu þarf að ganga í gildistökugrein með lögunum.

Umsögn Barnastofu er mjög athyglisverð á margan hátt og nefndin sem fær málið til meðferðar mun ugglaust fara mjög yfir hana. Þar er tekið fram að Barnastofa veki athygli á lokaathugasemdum eftirlitsnefndar Sameinuðu þjóðanna við framkvæmd Íslands á barnasamningnum, frá fundi hennar með fulltrúum íslenskra stjórnvalda sem var fyrr á þessu ári. Þar segir efnislega að skorta kunni á að samningurinn endurspeglist að fullu í landslögum og að gera þurfi ráðstafanir til að tryggja að þau réttindi sem talin eru í samningnum njóti fullrar verndar. ,,Hér á nefndin ugglaust við`` segir í umsögninni ,,hinn lága sjálfræðisaldur á Íslandi, en í bráðabirgðaathugasemdum nefndarinnar er sérstaklega hvatt til þess að hann verði tekinn til endurskoðunar.``

Virðulegi forseti. Það olli mér vissulega vonbrigðum og það skulu vera mín lokaorð, að sjá haft eftir hæstv. dómsmrh. þegar hann var spurður að því í Morgunblaðinu nýlega, að hann hefði ekki sannfærst um að rétt væri að gera þá lagabreytingu, þ.e. að hækka sjálfræðisaldurinn úr 16 árum í 18 ár. Ég veit að nefnd er að störfum á vegum dómsmrh. sem er að endurskoða þessi lög. Það er engu að síður von mín og trú að nefndin fallist á þau veigamiklu rök sem eru með hækkun sjálfræðisaldurs. Ég bendi einnig á að nefnd á vegum dómsmrh. skilaði niðurstöðum sínum í sumar, en það var verkefnastjórn sem var að vinna á vegum dómsmrh. að átaki til aðgerða gegn fíkniefnum. Hún mælir eindregið með því að hækka sjálfræðisaldurinn úr 16 árum í 18 ár.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. allshn.