Lögræðislög

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 19:21:26 (1094)

1996-11-12 19:21:26# 121. lþ. 21.23 fundur 49. mál: #A lögræðislög# (sjálfræðisaldur) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[19:21]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Í þessu frv. er lagt til að sjálfræðisaldurinn verði hækkaður um tvö ár, þ.e. það á að fara að gera stóran hluta unglinga sem í dag eru orðnir fullorðnir menn, að börnum. Ég get ekki fallist á þessi rök. Rökin eru vandi fíkniefnaneytenda sem er óneitanlega mjög mikill vandi. En það er ekki nema örlítið brot af unglingum sem betur fer, sem er í þeirri stöðu. Það má segja að það sé 1% unglinga sem er í verulega slæmum málum og fyrir þá finnst mér óeðlilegt að breyta öllum réttindum þeirra 99% sem eftir sitja og flestir hegða sér mjög ábyrgt og mjög vel.

Nú er það svo að unglingar bíða í ofvæni eftir því að verða fullorðnir og taka á sig réttindi, ábyrgð og skyldur hins fullorðna manns. Við það að hækka sjálfræðisaldurinn er verið að halda unglingunum lengur sem börnum. Mér finnst að það eigi virkilega að skoða hvort ekki eigi frekar að vinna að því að auka ábyrgð þeirra sem fullorðinna manna þannig að þeir taki ábyrgð og hegði sér á ábyrgan hátt.

Það sem mætti gera til að leysa þennan vanda í stað þess að gera alla unglinga að börnum, þ.e. að hækka sjálfræðisaldurinn upp í 18 ár, væri að gera auðveldara að svipta þá sjálfræðinu sem eru undir 18 ára aldri eða fresta og hækka sjálfræðisaldur, að það yrði gert mjög auðvelt. Foreldrar gætu t.d. óskað eftir því eða lögreglan eða aðrir aðilar, eða Barnastofa gæti óskað eftir því á einfaldan hátt að sjálfræðisaldrinum yrði frestað og hann hækkaður hjá einstökum einstaklingum. Þetta mundi líka leiða til þess að unglingarnir mundu sýna enn meiri ábyrgð því ef þeir ekki hegða sér skikkanlega, þ.e. fara út í vímuefnaneyslu eða eitthvað slíkt, þá taka þeir þá áhættu að verða sviptir sjálfræðinu og flokkaðir sem börn. Ég held að það sé miklu skynsamlegra að taka þannig á málum að láta sjálfræðisminnkunina eða hækkun sjálfræðisaldurs ná til þeirra sem raunverulega eru í vanda, vanda sem menn ætla að reyna að leysa, en ekki til allra hinna unglingana sem hegða sér vel flestir mjög vel.

Ég kynntist dálítið unglingum í mínu starfi sem kennari hér áður fyrr. Unglingar hegða sér upp til hópa mjög vel og standa sig yfirleitt mjög vel og eru mjög ábyrgir í sínu starfi og námi. Og mér finnst óeðlilegt að gera alla þessa unglinga að börnum vegna þess að einhverjir örfáir, 1%, 2%, hegða sér illa og leiðast út á villigötur þannig að lögregla og aðrir aðilar eru í vandræðum með að ráða við þá. Ég held að með því að gera það auðveldara að svipta menn sjálfræði, væri fundin lausn á þeim vanda sem lögregla og foreldrar standa í gagnvart unglingum sem hafa leiðst út á villigötur. En mér finnst rangt að gera alla unglinga ábyrgðarlausa.