Aðbúnaður um borð í fiskiskipum

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 20:02:18 (1104)

1996-11-12 20:02:18# 121. lþ. 21.27 fundur 131. mál: #A aðbúnaður um borð í fiskiskipum# þál., GHall
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[20:02]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég þakka þeim flutningsmönnum sem standa að tillögunni varðandi aðbúnað um borð í fiskiskipum og tek undir orð hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur um að þetta er dálítið vandmeðfarið mál. Eins og þingmaðurinn kom réttilega inn á var reglugerð um vistarverur áhafna fiskiskipa, öryggi og aðbúnaður í vinnu- og vinnslurýmum endurskoðuð og gefin út að nýju 23. jan. 1995. Ég minnist þess að sem þáv. formaður Sjómannafélags Reykjavíkur átti ég sæti í nefnd sem var að endurskoða einmitt þessar reglur á árunum 1976 og 1977 en þá höfðu ekki verið gerðar neinar breytingar á reglugerðum um aðbúnað áhafna á fiskiskipum á þriðja áratug. Þá var t.d. heimilt að hafa sjó í stað vatns í sturtum þannig að ekki er langt síðan einhver þróun fram á við varð í þessum málum sem snýr að vistarverum áhafnar.

Vissulega er full ástæða til að skoða þessi mál en þau eru svo víðtæk eins og hv. þm. kom inn á sem tengjast bæði reglum um vistarverum áhafnar, tengjast sjómannalögum, siglingalögum og síðan koma þau fjögur fagráðuneyti sem hv. þm. nefndi réttilega áðan. Hins vegar er líka athyglisvert þegar skoðuð eru sjómannalögin að þar eru ýmis ákvæði sem segja beinlínis til um að samanber 8. gr. í sjómannalögunum, þar sem segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

,,Við ráðningu nýliða skal skipstjóri sjá um að nýliðanum sé leiðbeint um störf þau sem hann á að sinna. Enn fremur skal honum sýndur björgunarbúnaður sá og viðvörunarbúnaður sem á skipinu er og leiðbeint um grundvallaratriði við notkun þeirra.``

Þetta er mál sem snertir vissulega það mál sem er hér til umfjöllunar, einkum og sér í lagi vegna þess að komið hefur í ljós að stór hluti áhafna þeirra skipa sem hafa farið í Smuguna hafa verið ungir menn sem jafnvel eru að stíga sín fyrstu skref á sjó og hafa þar af leiðandi fengið litla þekkingu eða reynslu. Allt stendur þetta þó til bóta svo langt sem það nær vegna þess að sú kennsla sem fer fram í Slysavarnaskóla sjómanna miðast fyrst og fremst að því hvernig menn eiga að bera sig að ef þeir þurfa að yfirgefa skip en reglunum sem viðkomandi sjómenn eiga að þekkja er aftur beint til yfirmanna sem eiga að leiðbeina þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref á skipsfjöl, en nokkur misbrestur er þar á.

Enn fremur var sú regla til margra ára að þegar menn komu til skips voru þeir ekki ráðnir nema þeir gætu lagt fram læknisvottorð og síðan var árleg læknisskoðun allrar áhafnarinnar sem var kostuð af útgerð. Það segir í 8. gr. sjómannalaga að samgrh. setji nánari reglur um læknisskoðun en því miður er mikill misbrestur á því og virðist vera að sá góði siður sé alveg horfinn. Í fleiri greinum sjómannalaganna er vísað til samgrh., að hann eigi að setja frekari reglur eða reglugerðir o.s.frv. en nokkuð skortir á að svo sé gert sem nauðsynlegt er.

Í reglum um vistarverur áhafnar og öryggi um borð í skipum er t.d. talað um stærð klefa. Þar segir m.a., aðeins til þess að gefa mönnum innsýn í það hvaða kröfur eru gerðar til vistarveru áhafnar og þá er ég einkum að ræða um það með tilliti til þess þegar skip er að fara um langan veg til veiða og eru í 6--8 vikur í burtu hvaða áhrif þetta getur haft á sjómennina. Þegar þessar reglur voru samdar á sínum tíma var ekki litið til þeirrar staðreyndar sem nú blasir við, þ.e. svo langrar útveru fiskiskipa eins og raun ber vitni. En þar segir svo, með leyfi forseta, að í svefnklefum skuli lágmarksflatarmál gólfs fyrir hvern mann vera sem hér segir: Skip styttra en 24 metrar 0,75 fermetar, en í skipi sem er 24 metrar að lengd á að vera einn fermetri á mann í eins manns klefa. Og hér segir líka um minnstu fjarlægð á milli veggja: Sérhver skipverji skal hafa sína eigin hvílu. Aðkoma að hvílunni skal vera frá hlið. Innanmál hvíla á skipum skal vera a.m.k. 1,98 x 0,68 metrar. Þó eru á skipum styttri en 24 metrar heimilaðar hvílur 1,98 x 0,58 metrar. Síðan segir að fjarlægð að borðplássi megi ekki vera minna en 60 sm frá kojustokk og að næsta vegg, þ.e. þá er verið að tala um gólfflötinn. Hér er því eitt og annað sem þarf að endurskoða. Ég tek heils hugar undir með framsögumanni og það er margt sem hefur verið hægt að segja um þetta.

Herra forseti. Með tilliti til þess að nú er orðið áliðið ætla ég ekki að hafa málflutning minn lengri þó vissulega hefði verið margt um að tala og margar athugasemdir sem eðlilegt hefði verið að gera við ástandið eins og það er nú. Ég vildi þó segja að lokum að því miður hefur nokkuð verið fjallað um það í fjölmiðlum að sá aðbúnaður sem nú er um borð í þessum skipum sem stunda veiðar í Smugunni sé með þeim hætti að það hafi beinlínis leitt til fjölda sjálfsvíga. En þegar grannt er skoðað er ekki allt satt sem sagt hefur verið og í athugun hjá landlækni hefur komið í ljós að hugsanlega gæti verið um tvö tilfelli að ræða sem hægt væri að rekja til þessa ástands. Fjöldinn skiptir ekki máli. Hér verður að grípa til hverra þeirra úrræða sem hægt er til að sporna við þessu alvarlega ástandi.

Ég vildi sérstaklega taka þetta fram í fyrsta lagi vegna sjómannastéttarinnar sjálfrar og svo líka það að leiðrétta þann leiða misskilning sem hér hefur komið fram vegna þess að það er mjög alvarlegt mál þegar fjölmiðlar og aðrir aðilar gera svo mikið úr þessu máli sem er ekki rétt og satt því að auðvitað skulum við hafa það sem sannast er og réttast. En ég styð það mál sem hér hefur verið lagt fram og vona að það fái skjóta afgreiðslu og menn einhendi sér í að vinna þau verk sem megi leiða til þess að sjómönnum á fjarlægum miðum verði svo búinn aðbúnaður að þeim líði betur og fjölskyldum þeirra því að þeir eiga það skilið.