Aðbúnaður um borð í fiskiskipum

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 20:10:16 (1105)

1996-11-12 20:10:16# 121. lþ. 21.27 fundur 131. mál: #A aðbúnaður um borð í fiskiskipum# þál., Flm. BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[20:10]

Flm. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni fyrir undirtektirnar og ég tek undir það sem hann sagði áðan að þetta er mjög vandmeðfarið mál og ég gerði mér fyllilega grein fyrir því þegar ég fór að vinna þessa tillögu. Þess vegna varð niðurstaðan sú að ákveðinni nefnd þeirra sem til þekkja eða eiga til að þekkja yrði falið að gera tillögu um úrbætur, m.a. með það í huga að fá einhverja heildaryfirsýn yfir málið. Ekki var ætlunin með tillöguflutningnum að gera úlfalda úr mýflugu heldur þvert á móti að taka þessa gagnrýni alvarlega og gera raunhæfar tillögur um úrbætur.

Það er vandasamt að koma saman tillögu um þetta mál, ekki aðeins vegna þess að málið er flókið og fjölþætt mál og tekur til mjög margra sviða, heldur er þetta einnig mjög viðkvæmt mál m.a. af þeim orsökum sem hv. þm. nefndi hér áðan.

Ég ítreka að hér er ætlunin að fá heildaryfirsýn og ég tel nauðsynlegt ef fjalla á um andlega og líkamlega líðan skipverja um borð og möguleika þeirra til tómstundaiðkana og annað að hafa yfirsýn um það hvernig aðstaðan sé að öðru leyti, starfsaðstaða, öryggismál o.s.frv.

Ég vil líka nefna í lokin að í raun og veru hafa miklu fleiri spurningar vaknað en þær sem eru nefndar í þessari tillögu í tengslum við úthafsveiðarnar sem eru t.d. núna fyrir dómstólum og tengjast m.a. veikindarétti og ávinnslu og úttekt veikindaréttar hjá sjómönnum sem verða veikir í útiveru og hvernig með það eigi að fara. Ég ákvað að láta það vera algerlega fyrir utan þetta efni þar sem þar erum við komin inn á enn eitt atriði sem er nýtt og mundi bara flækja málin að hafa í tillögu sem þessari.