Aðbúnaður um borð í fiskiskipum

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 20:12:38 (1106)

1996-11-12 20:12:38# 121. lþ. 21.27 fundur 131. mál: #A aðbúnaður um borð í fiskiskipum# þál., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[20:12]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Út af þeim síðustu orðum sem komu fram um víðfeðmi þessa máls vil ég upplýsa að ég var á þessu sjómannasambandsþingi og tók þátt í umræðunni og í störfum öryggis- og tryggingamálanefndar varðandi þessar tillögur frá sjómannasambandsþinginu.

En ég vildi líka geta þess að ég upplifði það sem formaður og starfsmaður Sjómannafélags Reykjavíkur að taka þátt í rannsóknum á störfum togarasjómanna og fjölskyldna þeirra fyrir allmörgum árum. Tómas Helgason prófessor stóð fyrir þeirri rannsókn. Þetta var ítarleg rannsókn sem fór fram á starfi sjómannsins og heilsufari og svo líka heilsufari fjölskyldna sjómanna og ber enn dálítinn keim af því sem nú er rætt um og var kannað þá fyrir einum 16--18 árum.

Það er líka rétt sem kom fram að málið er svo yfirgripsmikið að þó að, eins og hér hefur komið fram um öryggismál sjómanna annars vegar, það sé samgrh. og síðan félmrh. er ég eiginlega alveg sammála hv. 1. flm., hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur, að þetta er mál sem þarf auðvitað að fara um hendur einnar nefndar og síðan aftur til þeirra aðila sem um málið fjalla. Sjómannastéttin þarf að búa við það að það eru fjölmargir fagráðherrar sem koma að þeirra málum með einum eða öðrum hætti, hvort sem litið er til menntunar, til öryggiskrafna eða fleiri þátta. Eins og ég gat um áðan vona ég að þetta mál fái fljóta og skjóta afgreiðslu í meðförum þingsins svo að hægt verði að gera hér betrumbót á.

Enn fremur vil ég geta þess að ég flutti till. til þál. fyrir einum þremur árum um að kanna réttarstöðu manna vegna slysa og það mál er líka í ólestri og þarf mikillar skoðunar við þannig að í mörg horn er að líta í málum sjómannastéttarinnar.