Aðbúnaður um borð í fiskiskipum

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 20:15:34 (1108)

1996-11-12 20:15:34# 121. lþ. 21.27 fundur 131. mál: #A aðbúnaður um borð í fiskiskipum# þál., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[20:15]

Árni Steinar Jóhannsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa yfir ánægju minni með að þetta mál skuli komið fram. Það hefur komið fram hjá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni að málið er mjög víðfeðmt og ég vil taka undir það. Ég held að nauðsynlegt sé að setja umræðuna í gang á sem breiðustum grundvelli. Þar sem ég kem úr sjómannsfjölskyldu og útgerðarfjölskyldu tel ég að ég hafi innsýn í að þarna er á ferðinni mál sem þarf virkilega að ræða.

Ég vil varpa því fram að við þurfum að spyrja okkur spurninga eins og hvernig við eigum að sækja í auðlindina, með hvaða aðferðum. Það er allt önnur staða uppi í dag að vera í vinnu út árið eða taka tarnir, eins og íslenskir sjómenn gerðu á árum áður, síldarvertíð, vetrarvertíð o.s.frv. Það eru allt aðrar kröfur sem samfélagið gerir í dag til fjölskyldumála og því um líkt þannig að öll þessi mál þurfa að koma upp á yfirborðið.

Ef til vill verðum við að spyrja okkur hvort gullgrafaramórallinn í þessum málum, eins og kannski á mörgum öðrum sviðum, sé að leiða okkur í ógöngur. Ég vil nefna að fyrir okkur, venjulega borgara, er kyndugt að hætt er t.d. að tala í tonnum en bara talað í milljónum, svo ég nefni eitt dæmi. Við verðum að setja fram spurningar um lífsstíl til að rækta þessa auðlind. Það er alveg sama á hvaða sviði það er, hvort það er til sjávar eða sveita. Það er spurning um lífsstíl. Kannski kunnum við ekki og höfum ekki tileinkað okkur þann lífsstíl sem er nauðsynlegur þegar við förum langt í burtu frá heimahögum.

Ég minnist þess þegar ég var strákur og Færeyingar stunduðu veiðar við Ísland í salt, og voru langtímum í burtu að þá var hlegið að Færeyingum vegna þess að þeir veiddu ekki á sunnudögum. Þeir komu gjarnan til hafnar, klæddu sig upp, fóru í sitt fínasta púss, gengu upp að kirkju og við krakkarnir fengu kakó og beinakex á eftirmiðdögum. Maður hefur heyrt sögur af því úti á hafinu að Norðmenn eru miklu duglegri við t.d. að hætta veiðum eða taka sér pásu, heimsækja hver annan og ræða málin, þ.e. skipshafnir fara í heimsóknir á milli skipa eða inn á varðskip. Auðvitað eru dæmi um þetta hjá okkur líka. Þó að málið sé viðkvæmt, kannski sérstaklega viðkvæmt, vegna þess að sjómennirnir okkar eru hörkutól, vilja menn koma með það upp á borð hér. Og um viðkvæmnismál hefur alltaf verið erfitt að ræða á sjómannsheimilum vegna þess að það hefur kannski þótt merki um veikleika. Við verðum að ráðast í þessa umræðu þrátt fyrir það. Við höfum öll gott af henni, ekki bara sjómennirnir okkar, heldur við líka að nálgast hvert annað með breyttum viðhorfum.

Að þessu sögðu vil ég þakka fyrir að þetta mál hafi verið lagt fram þótt fyrr hefði verið.