Könnun á hagkvæmni kalkþörungavinnslu

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 20:18:54 (1109)

1996-11-12 20:18:54# 121. lþ. 21.26 fundur 86. mál: #A tilraunavinnsla á kalkþörungum í Húnaflóa og Arnarfirði# þál., Flm. StG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[20:18]

Flm. (Stefán Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég tala fyrir till. til þál. um tilraunavinnslu á kalkþörungum í Húnaflóa og Arnarfirði. Flm. ásamt mér eru Gunnlaugur M. Sigmundsson og Magnús B. Jónsson. Tillagan er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra að láta kanna hvort hagkvæmt geti verið að vinna áburð eða fóðurblöndunarefni úr kalkþörungum sem m.a. finnast í allmiklu magni í Húnaflóa og Arnarfirði. Verði niðurstaðan jákvæð skulu þessi mið könnuð frekar, áætlað magn kalkþörunga og árleg endurnýjun. Enn fremur verði markaðir fyrir þessa framleiðslu kannaðir.``

Í greinargerð segir svo:

,,Um árabil hefur verið vitað að í Húnaflóa og Arnarfirði er að finna auðug mið kalkþörunga. Dr. phil. Helgi Jónsson segir frá þessu í ritum sínum um íslenska sæþörunga árið 1910. Sigurður V. Hallsson efnaverkfræðingur tók sýni úr Arnarfirði árið 1969 og Karl Gunnarsson sjávarlíffræðingur var þar einnig við rannsóknir árið 1975.

Árið 1979 var gerð könnun á Húnaflóa með svokallaðri Shipek-botngreip. Kjartan Thors og Guðrún Helgadóttir lýstu þessum leiðangri í grein sem nefnist ,,Kalkþörungar á Húnaflóa og hugsanleg nýting þeirra`` í ritinu Íslenskar landbúnaðarrannsóknir árið 1980. Á vestanverðum Húnaflóa voru tekin 140 sýni. Tilgangur þeirrar ferðar var m.a. að kanna hvort þar mætti finna skeljasand sem nýta mætti til áburðar á ræktað land. Niðurstaða sýndi að ,,í Húnaflóanum, þ.e. á Miðfirði, Hrútafirði og Bitrufirði utanverðum, eru víðáttumiklar breiður af kalkþörungaseti. Ekki er unnt að segja til um þykkt þessa sets, en hin mikla útbreiðsla þess sýnir að um mikið magn er að ræða. Kalkþörungasetið er á litlu dýpi og því aðgengilegt til dælingar eða moksturs af hafsbotni.``

Sýni sem tekin voru í Arnarfirði árið 1969 voru þurrkuð í fiskimjölsverksmiðju á Patreksfirði og síðan efnagreind hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Niðurstaða greiningarinnar var sem hér segir:

Kalsíumkarbónat var 79,3%, magnesíumkarbónat var 9,7%, vatn 0,7%, köfnunarefni 0,25% og sandur um 1,5%.

Sigurður V. Hallsson segir m.a. í grein sem hann skrifaði í blaðið Ísfirðing 11. október 1969 þar sem hann lýsir miðunum við Langanes í Arnarfirði: ,,Brún neðansjávarnessins var staðsett með sextant og kortlögð, og reyndist flatarmál kalkþörungamiðanna við Langanes um 2,4 km2 . Á þessu svæði ætti því samkvæmt mælingum á rúmþyngd kalkþörunga að vera um 2 millj. tonna af ferskum kalkþörungum í eins metra þykku lagi, en þykkt lagsins er enn ókönnuð. Ef miðað væri við að vöxtur þörunganna væri 1 sm á einu ári, en lifandi skel sem fannst innan í kalkþörungsmola gefur það til kynna, ætti framleiðslan að vera 20 þús. tonn af kalkþörungum á Langanessvæðinu einu saman. Framangreindum tölum er einungis ætlað að gefa til kynna í hvaða stærðarflokki mærlingsframleiðslan gæti verið samkvæmt þeim frumathugunum sem hér hafa verið gerðar.`` (Sigurður notar hér orðið mærlingur um þörungana.)

Frakkar taka árlega um 300.000 lestir af kalkþörungaseti (maerl) af hafsbotni við Bretagne-skaga. Úr kalkþörungasetinu vinna þeir kalkáburð til notkunar í landbúnaði, en einnig hefur því verið blandað í skepnufóður og það notað til síunar á súru neysluvatni.

Þar sem alllangt er síðan þessu máli hefur verið gefinn gaumur, en ástæða er til að ætla að hér geti verið um veruleg verðmæti að ræða, er þessi þingsályktunartillaga flutt nú. Það er skoðun flutningsmanna að athuga beri allar auðlindir sjávar og landgrunns sem nýtanlegar kunni að vera, ekki síst ef hægt er að nota aðstöðu og vélakost sem þegar er fyrir hendi til vinnslunnar.``

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til síðari umr. og sjútvn.