Samkeppnisstarfsemi á vegum Póst- og símamálastofnunar

Miðvikudaginn 13. nóvember 1996, kl. 13:32:03 (1110)

1996-11-13 13:32:03# 121. lþ. 22.1 fundur 136. mál: #A samkeppnisstarfsemi á vegum Póst- og símamálastofnunar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi VK
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur

[13:32]

Fyrirspyrjandi (Viktor B. Kjartansson):

Virðulegi forseti. Á þskj. 151 legg ég fram fyrirspurn til samgrh. um samkeppnisstarfsemi á vegum Póst- og símamálastofnunar. Samgrh. hefur beitt sér fyrir breytingu á Póst- og símamálastofnun í hlutafélag og mun sú formbreyting eiga sér stað nú um áramótin. Þessari formbreytingu ber að fagna enda var hún skilyrði í samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði og nauðsynlegur þáttur í að búa stofnunina undir komandi samkeppni. Það sem hins vegar hefur gerst á undanförnum mánuðum eru breyttar áherslur hjá stofnuninni þar sem hún er farin að keppa við einkafyrirtæki á samkeppnismarkaði um svokallaða innhringiþjónustu fyrir internet eða alnet. Um 10 ára skeið hafa einkafyrirtæki verið að hasla sér völl á þessu sviði og með framsækni sinni og áræði staðið þannig að málum að Íslendingar eru nú í fremstu röð þjóða í að nýta sér þessa nýju tækni. Póstur og sími hefur frá upphafi selt einkafyrirtækjum aðgang að dreifikerfi sínu jafnt innan lands sem og verið milligönguaðili um útvegun sambands frá Íslandi til annarra landa. Það er einmitt það hlutverk sem Póstur og sími á að einbeita sér að, að útvega öflugt og nútímalegt dreifikerfi fyrir upplýsingahraðbraut nútímans. Það er lykilatriði að Póstur og sími hf. skilgreini sig sem heildsala en ráðist ekki með yfirgnæfandi markaðsaðstöðu sinni að smásölumarkaði þar sem boðið er upp á þjónustu sem nýtir sér grunnkerfi Pósts og síma.

Því hefur verið haldið fram að Póstur og sími verði að fara inn á þessi svið og verða ríkjandi fyrirtæki á sviði internet-þjónustu til að geta mætt erlendri samkeppni. Þessi röksemdafærsla finnst mér á engan hátt ganga upp því með sömu rökum mætti halda því fram að Póstur og sími yrði að verða ríkjandi aðili á sölu símtækja og einkafyrirtæki yrðu að víkja til að Póstur og sími geti mætt erlendri samkeppni. Og í framhaldi mætti segja að ríkinu væri það nauðsynlegt að koma á fót einum öflugum ríkisbanka eða öflugu ríkistryggingafélagi til að geta keppt við erlenda aðila. Ég spyr hvaða stefna þetta sé. Þetta er ekki sjálfstæðisstefna og þetta er ekki sú stefna sem ég tel að sé best fyrir íslenskt efnahagslíf til að búa sig undir alþjóðlega samkeppni. Ég tel þvert á móti að ríkisfyrirtæki eigi að draga úr umsvifum sínum þannig að einkafyrirtæki fái pláss til að vaxa og dafna og verða þannig öflug fyrirtæki á alþjóðamarkaði. Ég hef ekki tíma til að fara út í einstök atriði varðandi útfærslu Pósts og síma á þessari þjónustu sinni sem þó gæfi tilefni til annarrar umræðu en vona þó að samgrh. varpi ljósi á þær spurningar í svari sínu.