Samkeppnisstarfsemi á vegum Póst- og símamálastofnunar

Miðvikudaginn 13. nóvember 1996, kl. 13:41:00 (1113)

1996-11-13 13:41:00# 121. lþ. 22.1 fundur 136. mál: #A samkeppnisstarfsemi á vegum Póst- og símamálastofnunar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur

[13:41]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Póstur og sími lýsti því yfir á sínum tíma að uppsetningu hnitpunkta væri lokið. Síðan kom í ljós að þetta var ekki rétt og um stórfelldan kostnað var að ræða fyrir Póst og síma vegna niðurgreiðslu þjónustunnar. Hvernig réttlætir ráðherrann að slík ósannindi séu notuð í samkeppni og opinberum fjármunum varið til að gleypa markaðinn? Miðað við viðbrögð ráðherrans við gagnrýni hingað til má ætla að Sjálfstfl. telji það vænlega leið til nýsköpunar í atvinnulífinu að farið sé fram eins og Póstur og sími hefur gert gagnvart frumherjum í internet-þjónustu, að öflugum ríkisfyrirtækjum sé teflt inn á markað sem einkafyrirtæki hafa þróað og byggt upp. Ráðherrann reynir að verja sig með því að yfirvofandi sé meiri samkeppni að utan þegar fjarskipti verða gefin frjáls. Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvort hann ætlar að vera búinn að hreinsa allt út af markaðinum áður en að því kemur. Rök ráðherrans, herra forseti, eru þau sömu og kaupfélagsstjóranna í gamla daga þegar þeir voru að leggja hramminn yfir smásöluverslunina úti á landi.