Samkeppnisstarfsemi á vegum Póst- og símamálastofnunar

Miðvikudaginn 13. nóvember 1996, kl. 13:48:01 (1118)

1996-11-13 13:48:01# 121. lþ. 22.1 fundur 136. mál: #A samkeppnisstarfsemi á vegum Póst- og símamálastofnunar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur

[13:48]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Því miður er tillagan ekki þannig vaxin að ég sé sammála henni, en ég hefði verið fylgjandi henni ef hún hefði verið um að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag.

Ég get út af fyrir sig skilið það sjónarmið hv. þm. að hann beri fyrir brjósti, eins og ég geri raunar líka, nýjan vaxtarbrodd hér í atvinnurekstri. En þegar við erum að tala um alþjóðleg viðskipti þá er það alveg ljóst að það á enginn t.d. internetið. Það á enginn símann. Ég er hér með lista, að vísu orðinn svolítið gamlan, frá Svíþjóð. Þar kemur fram að á internet-markaðnum þar eru smásalar Telecom Finland, Transpack, sem er samstarf við franska símann, þar er svissneski síminn, spænski síminn, hollenski síminn, Unisource og fleiri á ferðinni. Bandaríkjamenn eru að keppa í Hollandi og þar fram eftir götunum þannig að internet-þjónustan er þjónusta sem verður rekin af þeim samkeppnisaðilum símans sem verður frjálst að stunda hér alhliða viðskipti 1. janúar 1998.

Sú samkeppni sem þessi litlu fyrirtæki óttast er ekki íslenski síminn. Það er heldur hvað mætir þeim eftir að algjört frelsi verður komið hér á landi 1. janúar 1998. Og á miðju næsta ári verður kominn nýr aðili inn á GSM-markaðinn. Það er því alveg ljóst að það er borin von að við getum búist við því að einhver lítil fyrirtæki hér heima fái að vera í friði við sinn garð vegna þess að hinir erlendu menn eru þegar farnir að þreifa fyrir sér. Og ef hv. þm. er kunnugur þessu þá veit hann að hér eru fyrirtæki sem að stórum hluta til eru í eigu erlendra fyrirtækja sem eru að keppa hér. Þar að auki hélt ég að það væru opinber fyrirtæki sem hefðu komið hér inn á internet-markaðinn, t.d. Skýrr. Og ég man ekki betur en SURÍS hafi verið opinbert fyrirtæki. Þó því hafi verið breytt í hlutafélag er það að meiri hluta til opinbert fyrirtæki og það er alveg augljóst og þarf ekki að fara mörgum orðum um það að síminn íslenski er fjarskiptafyrirtæki sem hlýtur að starfa á sama grundvelli og önnur fjarskiptafyrirtæki í veröldinni.