Lágmarksrefsing við alvarlegum líkamsárásum

Miðvikudaginn 13. nóvember 1996, kl. 13:50:43 (1119)

1996-11-13 13:50:43# 121. lþ. 22.2 fundur 137. mál: #A lágmarksrefsing við alvarlegum líkamsárásum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi VK
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur

[13:50]

Fyrirspyrjandi (Viktor B. Kjartansson):

Virðulegi forseti. Ég ber hér fram fyrirspurn til dómsmrh. sem hljóðar svo:

,,Hyggst ráðherra leggja til breytingu á almennum hegningarlögum þannig að þar verði kveðið á um lágmarksrefsingu við alvarlegum líkamsárásum?``

Almenningur hér á landi hefur þungar áhyggjur af því að ofbeldi hefur aukist verulega í þjóðfélaginu á undanförnum árum. Ofbeldisverkum hefur fjölgað og svo virðist sem hættulegri aðferðum sé iðulega beitt við brotin en áður tíðkaðist. Dómar fyrir alvarlegar líkamsárásir virðast ekki endurspegla það álit almennings að beita beri ströngum refsingum fyrir brot af þessu tagi og því vaknar sú spurning hvort ástæða kunni að vera fyrir löggjafann að breyta þeim ákvæðum almennra hegningarlaga sem hafa að geyma refsiheimildir fyrir brot af þessu tagi.

Ekki er síst ástæða til að skoða hvort hugsanlega megi breyta 218. gr. og að þar verði sett inn ákvæði um lágmarksrefsingu með sama hætti og þar er kveðið á um hámarksrefsingu. Samkvæmt greininni má dæma mann til fangelsisvistar í allt að 16 ár vegna alvarlegra líkamsárása en ekkert kemur fram um lágmarksrefsingu fyrir slík brot. Er ákvæðið að þessu leyti frábrugðið t.d. 194. gr. og 211. gr. þar sem kveðið er á um lágmarksrefsingu fyrir tiltekin brotn, t.d. nauðgunarbrot.

Samkvæmt 194. gr. er lágmarksrefsing fyrir nauðgun eins árs fangelsi og samkvæmt 211. gr. er lágmarksrefsing fyrir manndráp fimm ár. Ljóst er að innan ramma 218. gr. geta fallið mjög alvarleg ofbeldisverk. Virðist því full ástæða til þess að dómsmrn. taki til athugunar hvort ekki sé tilefni til þess að setja þar inn lágmarksrefsingu hafi slík athugun ekki þegar farið fram. Benda má á í því sambandi að umræður um lágmarksrefsingar hafa verið talsverðar að undanförnu í ýmsum nágrannalöndum okkar, t.d. Bretlandi.

Virðulegi forseti. Á undanförnum dögum höfum við orðið vitni að mjög alvarlegum ofbeldisverkum í þjóðfélaginu og það er ekkert launungarmál að margir eru orðnir mjög uggandi en svo virðist sem þessi þróun sé ekki að taka enda. Líkamsárásir verða sífellt alvarlegri og því miður virðist sem gerendur séu að verða yngri. Ég held að það sé ástæða til þess ef dómstólar nýta ekki þann refsiramma sem nú þegar er í lögunum, þá verði að koma eitthvert frumkvæði frá Alþingi sem ýti á dómstóla og beinlínis segi fyrir um ákveðna lágmarksrefsingu þegar um svona alvarlega glæpi er að ræða.