Lágmarksrefsing við alvarlegum líkamsárásum

Miðvikudaginn 13. nóvember 1996, kl. 13:58:43 (1121)

1996-11-13 13:58:43# 121. lþ. 22.2 fundur 137. mál: #A lágmarksrefsing við alvarlegum líkamsárásum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., GHall
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur

[13:58]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir að koma með þetta mál hér inn svo brýnt sem það er. Hæstv. dómsmrh. ræddi um ýtrustu kröfur dómstóla varðandi mál sem snúa að líkamsárásum. Við höfum nýlegt dæmi um það að unglingar eru að ráðast hver að öðrum með vopnum. Ekki er langt síðan ég átti erindi upp á Landspítala þar sem ég hitti unga stúlku bundna hjólastól sem hafði orðið fyrir líkamsárás jafnaldra sinna. Það vakti mig til umhugsunar um það hvort ekki sé rétt að taka upp þann hátt, þegar unglingar ráðast hver að öðrum eins og nýleg dæmi sýna, að dæma þá seku t.d. til þess að sinna ákveðnum skyldustörfum inni á spítölum, t.d. við hreingerningar eða til að heimsækja fórnarlömbin sem þeir hafa valdið svo miklum skaða.

Mér finnst það góð frétt sem dómsmrh. segir að í bígerð sé heildarendurskoðun á málum varðandi löggjöfina um sakborninga en ég veit að þau eru ákaflega vandmeðfarin þau mál sem snúa að því þegar unglingar brjóta svo alvarlega af sér eins og t.d. nú síðast voru fréttir um í fjölmiðlum fyrir tveim dögum. Það er a.m.k. umhugsunarefni hvort ekki sé eðlilegt að fara aðra leið en að dæma fólk til fangelsisvistar. Ég er sannfærður um að það mundi verða mjög áhrifaríkt ef ungir afbrotamenn hlytu þann dóm að mæta á spítala til ræstingastarfa eða til að heimsækja það fólk sem þeir hefðu valdið líkamsmeiðingum.