Útvarps- og sjónvarpssendingar

Miðvikudaginn 13. nóvember 1996, kl. 14:11:32 (1126)

1996-11-13 14:11:32# 121. lþ. 22.3 fundur 139. mál: #A útvarps- og sjónvarpssendingar# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., GHall
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur

[14:11]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 1. þm. Vestf., fyrir að koma með þessa fyrirspurn. Í svari hæstv. menntmrh. komu fram athyglisverðar upplýsingar.

Á 20. þingi Sjómannasambands Íslands fór allmikill tími í umræðu um þetta málefni og það hefði kannski verið gott ef þingið hefði verið upplýst um þessa stöðu mála. Hitt er annað mál að það komu líka fram á sjómannasambandsþinginu umræður um það hvort ekki væri eðlilegt að nota þann búnað sem nú er til bæði á Gunnólfsvíkurfjalli og Bolafjalli en fullyrt er að þangað upp liggi ljósleiðari sem hljóti þá að afmynda þær tölur sem hér voru lagðar fram.

Það var athyglisvert líka að hlusta á það að síðast hefði þetta verið reiknað út 1974 varðandi sjónvarpið, en ég vænti þess að menntmrh. vinni áfram að þessu máli því að eins og kom fram í hans máli eru allar tölur í þessu dæmi orðnar svo afstæðar miðað við þá tækni sem nú er orðin.