Útvarps- og sjónvarpssendingar

Miðvikudaginn 13. nóvember 1996, kl. 14:12:56 (1127)

1996-11-13 14:12:56# 121. lþ. 22.3 fundur 139. mál: #A útvarps- og sjónvarpssendingar# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., RA
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur

[14:12]

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á því máli sem hér hefur verið til umræðu. Það hefur dregist ár frá ári að bætt sé úr á þessu sviði og almennt má reyndar segja að dreifingar á útvarps- og sjónvarpsefni séu enn á mjög frumstæðu stigi hér á landi. Maður þarf ekki annað en að aka hringveginn til að uppgötva það að víða á hringveginum heyrist alls ekkert í útvarpi núna 65 árum eftir að útvarpi var komið á fót hér á Íslandi. Þetta er auðvitað algjörlega óviðunandi ástand.

En verst er ástandið á miðunum. Ég skil satt að segja ekki af hverju þetta mál hefur ekki verið tekið miklu fastari tökum á undanförnum árum og þá sérstaklega eftir þeirri leið sem hæstv. ráðherra nefndi í lok síns máls, þ.e. með notkun gervihnattasendinga. Það eru bráðum 20 ár síðan til stóð að við Íslendingar eignuðumst aðild að gervihnattasendingum og ég skil eiginlega ekki af hverju sá þáttur málsins hefur ekki verið skoðaður miklu betur.