Útvarps- og sjónvarpssendingar

Miðvikudaginn 13. nóvember 1996, kl. 14:15:29 (1129)

1996-11-13 14:15:29# 121. lþ. 22.3 fundur 139. mál: #A útvarps- og sjónvarpssendingar# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur

[14:15]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka hæstv. menntmrh. fyrir ákaflega skýr og greinargóð svör og þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í þessari umræðu. Umræðan hefur enn undirstrikað mikilvægi þessa máls og hversu brýnt það er að ráða þarna bót á.

Ég fagna því sérstaklega sem fram kom í máli hæstv. ráðherra að hægt væri að ráðast í ýmsar úrbætur sem ekki þyrftu að kosta hlutfallslega mjög mikið en gætu samt sem áður náð býsna miklum árangri. Mér er það mætavel ljóst að allsherjarlausn á þessu viðfangsefni getur kostað býsna mikla peninga. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra og þó að tölurnar sem hann væri með væru gamlar framreiknaðar tölur, er það engu að síður alveg ljóst að allsherjarlausn á þessu máli mun kosta talsvert fé.

En hitt vakti sérstaka athygli mína sem var það að hægt er að ná mjög verulegum og myndarlegum áföngum án þess að kosta svo miklu til. Það er, held ég, hlutur sem við þurfum alveg sérstaklega að skoða, að láta ekki hugfallast þó að við stöndum frammi fyrir stórum tölum við að leysa þetta mál svo fullnægjandi sé fyrir öll miðin, heldur reyna að ráðast í þá áfanga sem eru tiltölulega ódýrir en geta kannski skilað miklum árangri.

Ég hef oft fært það í tal hvort ekki væri hægt að nota mannvirkin á Bolafjalli og Gunnólfsvíkurfjalli eins og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson nefndi og tel alveg einboðið að við getum nýtt þessi mannvirki. Ég bendi á í þessu sambandi t.d. að Póstur og sími hefur fengið heimild rat\-sjárnefndar til að setja upp búnað fyrir farsíma út á miðin á Bolafjalli við Bolungarvík. Það kostaði tiltölulega mjög lítið en skilaði mjög miklum árangri fyrir mjög stóran hluta sjómanna. Við skulum ekki gleyma því að oft er það þannig að stór hluti báta og skipa er á tiltölulega afmörkuðum svæðum eða stór hluti sjómanna þannig að það er hægt að ná mjög miklum árangri í þessum efnum með því að horfa svolítið skilgreint og skilvirkt á einstök svæði.