Möguleikar ungmenna til framhaldsnáms

Miðvikudaginn 13. nóvember 1996, kl. 14:27:12 (1133)

1996-11-13 14:27:12# 121. lþ. 22.4 fundur 140. mál: #A möguleikar ungmenna til framhaldsnáms# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur

[14:27]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda þá fyrirspurn sem hér er lögð fram um það mál sem hreyft er. Eins vil ég þakka hæstv. menntmrh. hans orð um væntanlegar kannanir, úttekt og vonandi snarpar og góðar aðgerðir í framhaldi af því. Ég tel að hér sé hreyft afar mikilvægu máli. Þegar við ræðum byggða- og atvinnumál, dettur okkur í hlut flutningur ríkisstofnana. Við tölum um styrk eða stuðning við atvinnulíf en við megum ekki gleyma því að e.t.v. er mesti stuðningurinn einmitt við fjölskyldurnar. Fólk vill hafa atvinnu, viðunandi kjör, öryggi og heilbrigðisþjónustu, gott félagslegt umhverfi, farsælan uppvöxt barna sinna og þá ekki síst menntunarmöguleika. Hér er því hreyft miklu réttlætis- og jafnréttismáli, fjölskyldustefnu og síðast en ekki síst góðri fjárfestingu því að að sjálfsögðu eru í þeim hópi sem um er að ræða margir efnilegir námsmenn sem munu skila þjóðfélaginu þörfum og góðum störfum er þeir hafa lokið sínu námi.