Möguleikar ungmenna til framhaldsnáms

Miðvikudaginn 13. nóvember 1996, kl. 14:29:54 (1135)

1996-11-13 14:29:54# 121. lþ. 22.4 fundur 140. mál: #A möguleikar ungmenna til framhaldsnáms# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur

[14:29]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda þessa fyrirspurn og menntmrh. fyrir skýr svör. Staðreyndin er sú að við verjum minna fé til menntamála, búum kennurum og nemendum lakari vinnuaðstöðu og launum kennara verr en þekkist í flestum öðrum Evrópulöndum. Hvernig getum við svo ætlast til að menntun unga fólksins, að ég tali nú ekki um í dreifbýlinu þar sem aðstæður eru allar erfiðari vegna fámennis, sé sambærileg við það sem gerist í löndunum í kringum okkur við þessar aðstæður er fyrir ofan minn skilning jafnvel þó að einhverjir smástyrkir séu veittir.

Ég verð að segja að þeir styrkir sem um er að ræða og er verið að láta börn úr dreifbýlinu hafa sem sækja nám hingað til Reykjavíkur eru langt fyrir neðan allt velsæmi og langt fyrir neðan þann kostnað sem raunverulega fylgir slíku. Auk þess tekur fólk mikla áhættu með því að senda börnin sín burtu til náms á þéttbýlisstaði á viðkvæmum aldri.