Möguleikar ungmenna til framhaldsnáms

Miðvikudaginn 13. nóvember 1996, kl. 14:35:13 (1139)

1996-11-13 14:35:13# 121. lþ. 22.4 fundur 140. mál: #A möguleikar ungmenna til framhaldsnáms# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur

[14:35]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég hef ekki miklu við þær ágætu ræður að bæta sem hér hafa verið fluttar og tek undir það sem fram hefur komið um nauðsyn þess að við könnum orsakir brottfallsins og gerum þá líka vonandi raunhæfar ráðstafanir til þess að tryggja sem flestum sem bestan aðgang að námi.

En ég vil sérstaklega taka undir með hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni þegar hann minnti á að uppbygging framhaldsskólanna úti um landsbyggðina er náttúrlega stærsta skrefið sem stigið hefur verið í þessu tilliti. Framhaldsskólarnir eru nú orðnir 37 og búnir að festa rætur víða um landið og skipta miklu máli fyrir byggðarlög sín.

Að lokum vil ég nota þann stutta tíma sem ég hef til að vekja athygli á því sem ég nefndi í ræðu minni í upphafi. Það er gildi fjarkennslunnar. Ég átti kost á því í gær að ræða við skólameistara Verkmenntaskólans á Akureyri og þá menn sem þar hafa unnið brautryðjendastarf í fjarkennslu á framhaldsskólastigi. Ég held að á þeim tæpu tveimur árum sem þeir hafa unnið hafi náðst ótrúlegur árangur á þessu sviði og að þar hafi tekist að byggja upp námsefni og koma því þannig fyrir tæknilega á tölvunum að með ólíkindum sé, enda stunda nú nemendur nám í verkmenntaskólanum eða fjarskóla Verkmenntaskólans á Akureyri, ekki aðeins hér á landi heldur um allan heim. Ásóknin í þetta nám eykst án þess að skólinn hafi nokkuð í sjálfu sér kynnt þetta markvisst, enda hefur hann ekki talið sig í stakk búinn til þess á undanförnum missirum vegna þess að þetta hefur verið tilraunaverkefni sem unnið hefur verið á vegum menntmrn. og skólans. Þarna held ég, þegar við ræðum um aðstöðu til náms, að í þessu felist einhver mesta bylting sem við höfum staðið frammi fyrir og eigi eftir að skipta hvað mestu um það að draga úr aðstöðumun að þessu leyti. Ég vil því hvetja þingmenn til að fylgjast náið með því starfi sem unnið hefur verið í Verkmenntaskólanum. Ég hef fullan hug á því að hann verði þróunarskóli á þessu sviði hér á landi og að við leggjum skólanum lið við þessa uppbyggingu því að það er skynsamlegasta skrefið sem ég hef vitað um og heyrt um upp á síðkastið sem lýtur að raunverulegri jöfnun náms í landinu.