Skrifleg svör við fyrirspurnum

Miðvikudaginn 13. nóvember 1996, kl. 14:41:22 (1141)

1996-11-13 14:41:22# 121. lþ. 23.95 fundur 82#B skrifleg svör við fyrirspurnum# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur

[14:41]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég til taka undir það með hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur að oft er það svo að skrifleg svör ráðherra sem berast hér inn á borð eru algjörlega úr takt við það sem um er spurt og vil ég taka sem dæmi svar á þskj. 108 við fyrirspurn Guðnýjar Guðbjörnsdóttur um fátækt á Íslandi. Þar er hæstv. forsrh. spurður nokkurra spurninga, m.a. þess hvernig íslensk stjórnvöld skilgreini fátæktarmörk. Það eru engin svör í þessum svörum, nákvæmlega engin svör. ,,Hugtakið er afar afstætt`` er sagt, ,,til að mynda þýðir fátækt í efnuðum ríkjum annað en fátækt í vanþróuðum ríkjum`` o.s.frv. Þetta eru ekki svör við því sem spurt er um. Hér er líka spurt: ,,Hyggst ríkisstjórnin bregðast við áðurnefndum upplýsingum um fátækt á Íslandi?`` Þá er vitnað í upplýsingar sem bárust frá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og voru mjög alvarleg tíðindi að mörgu leyti og voru birt í Morgunblaðinu nýlega. Það eru heldur engin svör á þessu blaði við þessu. Jú, það er sagt að hagvöxtur sé ráðandi um þróun lífskjara og að stöðugleiki stuðli að bættum lífskjörum. Þetta er eitthvað sem flestir vita. En ekki er svarað þeirri fyrirspurn hvort ríkisstjórnin hæstv. hyggist gera eitthvað í þessum málum, gera eitthvað í málum þess fólks sem er fátækt hér á landi m.a. vegna aðgerða hæstv. ríkisstjórnar. En það er eins og henni komi ástandið ekki neitt við í þessu svari.

Ég verð að segja eins og er að ég tek fyllilega undir með þeim þingmanni sem hér kvaddi sér hljóðs. Ég spurði mig að því hvort það væri þá ekki lágmarkskrafa að hæstv. ráðherrar sýni þinginu þá virðingu að svara a.m.k. þeim fyrirspurnum sem til þeirra er beint, sérstaklega úr því að þeir eru á annað borð að leggja vinnu í að láta skrifa niður eitthvað sem á að heita svar við fyrirspurn.