Póst- og fjarskiptastofnun

Miðvikudaginn 13. nóvember 1996, kl. 15:21:08 (1148)

1996-11-13 15:21:08# 121. lþ. 23.13 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv., EKG
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur

[15:21]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hefur komið fram í umræðunni að þessi frv. sem við ræðum í einu slengi eru á sinn hátt eðlilegt framhald af því sem gerðist í vor þegar við samþykktum formbreytingu á Pósti og síma sem gerði það að verkum að fyrirtækið er ekki hluti af stjórnsýslunni eins og það hefur verið fram að þessu. Enn fremur er þetta mjög í samræmi við það sem hefur verið að gerast í nágrannalöndum okkar á vettvangi ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins og þar fram eftir götunum. Í sjálfu sér ætti ekki að koma á óvart það sem hér er verið að lögfesta sem er fyrst og fremst að tryggja skýrar leikreglur á þessum mikilvæga fjarskiptamarkaði og koma á einhverjum eftirlitsaðila sem getur skorið úr ágreiningsefnum hjá fyrirtækjum sem starfa á þessum markaði.

Raunar kom skýrt fram í umræðum fyrr í dag að þetta er markaður þar sem tekist er mjög harkalega á. Þess vegna er ekki við öðru að búast en því að ýmis álitamál komi upp sem þurfi að skera úr. Við skulum ekki gleyma því að með þeirri breytingu sem er að gerast hér á landi hefur það nú gerst að í staðinn fyrir að hafa hér eitt stórt fjarskiptafyrirtæki, sem annaðist alla starfsemi á því sviði og hefði einkarétt á flestum sviðum til viðbótar, eru æ fleiri fyrirtæki að hasla sér völl á þeim vettvangi sem Póst- og símamálastofnun hefur starfað ein. Þess vegna er við því að búast að ýmis álitamál komi upp sem þurfi að skera úr um. Þess vegna er mjög þýðingarmikið að allar leikreglur séu sem skýrastar og að hægt sé að tryggja að aðilar, sem séu að keppa á þessum viðkvæma markaði, geti skotið til úrskurðar álitamálum til stofnunar sem er sjálfstæð og því bær til þess að skera úr um álitamál. Ég held að það sé mjög þýðingarmikið sem kemur fram í 8. gr. þessa frv. að við skiptum þessu í tvennt, við höfum annars vegar póst- og fjarskiptastofnun sem tekur á málinu á frumstigi og hins vegar höfum við sjálfstæða úrskurðarnefnd sem getur síðan tekið mál til meðhöndlunar ef upp kemur ágreiningur. Ég vek athygli á því að í 8. gr. er líka gert ráð fyrir því að úrskurður þessarar nefndar skuli að jafnaði liggja fyrir innan átta vikna frá því að kæra berst og að úrskurðir nefndarinnar skuli vera endanlegir á stjórnsýslustigi. Ef aðili vill ekki una þessum úrskurði getur hann borið þann úrskurð undir dómstóla en að öðru leyti er ekki hægt að skjóta þessu áfram til annars stjórnsýslustigs eins og ráðherra enda væri það óeðlilegt í ljósi þess að það er ráðherra sem fer með öll hlutabréfin í einu fjarskiptafyrirtækjanna, þ.e. Pósti- og síma hf., eins og fyrirtækið mun heita eftir áramótin, og þess vegna væri það óeðlilegt að hann kæmi þar að.

Ég fagna því sem mér hefur virst vera að koma hér í ljós að breið samstaða er að myndast um þetta fyrirkomulag. Nýkjörinn formaður Alþfl., sem á þar með sæti í hinum stórkostlega sameinaða þingflokki jafnaðarmanna hefur, lýst yfir vilja síns flokks í þeim efnum. Það er nú ekki örgrannt um að þar sjáist svolítil áherslubreyting ef ekki stefnubreyting frá þeim málflutningi sem við heyrðum fyrr á þessu ári. Að minnsta kosti er ljóst að um þessi mál er að skapast miklu meiri friður og kyrrð en maður hefið getað ímyndað sér og það er eðlilegt vegna þess að hér erum við fyrst og fremst að fara inn í þróun sem er að eiga sér stað annars staðar í heiminum í kringum okkur. Markaðurinn er í eðli sínu þannig að þar eru engin landamæri og fjarskiptastarfsemi og fjölmiðlastarfsemi er að verða angi af hinu sama.

Það kom raunar fram fyrr í dag í máli hæstv. menntmrh. að einn kosturinn t.d. við að nálgast útsendingar útvarps og sjónvarps er að nota hið fræga internet og það sýnir okkur auðvitað og sannar að mörk milli þessara tveggja kerfa, fjölmiðlunar og fjarskipta, eru að verða óljós og það undirstrikar að þessi fjölmiðlafyrirtæki og fjarskiptafyrirtæki munu hasla sér völl hvert á annars sviði og það gerir enn þá mikilvægara að allar reglur séu sem skýrastar og möguleikar til málsskots séu sem bestir. Ég held að það sé tryggt með þessu frv. og þeim frv. sem mælt verður fyrir hér á eftir og þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að þetta komist áfram og verði leitt í lög. Ég ætla ekki annað en að það geti tekist nú á haustdögum, ekki síst í ljósi þeirrar samstöðu sem mér virðist vera að opnast um þetta mál.