Fjarskipti

Miðvikudaginn 13. nóvember 1996, kl. 15:54:04 (1154)

1996-11-13 15:54:04# 121. lþ. 23.14 fundur 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur

[15:54]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ég gleymdi að fletta skýringunum við 2. gr. upp í frv. en þar stendur raunar að hún þarfnist ekki skýringa og er ég þá að tala um skilgreininguna.

En á hinn bóginn vil ég gleðja hv. þm. með því að þessi grein er óbreytt frá gildandi lögum þannig að hér er ekki um nýmæli að ræða heldur hefur talsímaþjónusta verið skilgreind með þessum hætti í lögunum. Ég hef ekki tekið það nógu skýrt fram en ég taldi að það væri skýrt í grg. að ekki er ætlunin að breyta réttindum elli- og örorkulífeyrisþega með frv. Það er auðvitað rétt hjá hv. þm. að það liggur fyrir í ríkisreikningi og í reikningum Pósts og síma hvaða fjárhæðum eftirgjöfin til aldraðra og öryrkja nemur. En það sem ég var að víkja að var hvort ekki væri rétt að það kæmi fram í fjárlögunum sjálfum í staðinn fyrir að fela það í ríkisreikningi.