Fjarskipti

Miðvikudaginn 13. nóvember 1996, kl. 15:57:21 (1156)

1996-11-13 15:57:21# 121. lþ. 23.14 fundur 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur

[15:57]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Vegna umræðu um niðurfellingu á fastagjaldi á síma hjá lífeyrisþegum, vil ég ítreka það, sem reyndar kom fram hjá hæstv. ráðherra áðan, að hvað eftir annað kom fram í umræðunni í vor, um breytingu á rekstri Pósts og síma, að ekki yrðu lögð niður eða hætt við þessi hlunnindi. Þeim yrði haldið áfram, þ.e. lífeyrisþegar sem eru með fulla tekjutryggingu fengju fastagjaldið af símanum lagt niður. Ég vil halda því til haga sem ráðherrann sagði fullum fetum, og hefur reyndar ítrekað það hér, og ég vona að staðið verði við að ekki verði fellt niður að þeir lífeyrisþegar, sem hafa hvað minnst að bíta og brenna, fái þessi hlunnindi áfram.