Póstþjónusta

Miðvikudaginn 13. nóvember 1996, kl. 15:59:59 (1158)

1996-11-13 15:59:59# 121. lþ. 23.15 fundur 151. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur

[15:59]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Með frumvarpi þessu er lagt til að gerðar verði grundvallarbreytingar á fyrirkomulagi og stjórn póstlaga til samræmis við þá þróun sem orðið hefur í Evrópu á sl. árum.

Það sem er hvað mikilvægast í því sambandi er að einkaréttur ríkisins til póstmeðferðar er þrengdur verulega og afmarkaður mun nánar en verið hefur. Það mun þó ekki raska því markmiði frumvarpsins að tryggja eftir sem áður hagkvæma og virka póstþjónustu fyrir landsmenn alla, hvar á landinu sem þeir eru búsettir.

Við samningu frumvarps þessa hefur verið höfð hliðsjón af tillögum að tilskipun um sameiginlegar reglur um þróun póstþjónustu Evrópusambandsins og aukin gæði póstþjónustunnar, sem lagðar hafa verið fyrir Evrópuþingið og ráðherraráðið.

Meðal merkilegra nýmæla í frumvarpinu er að í fyrsta skipti er stefnt að því í íslenskri löggjöf um póstþjónustu að skilgreina hugtakið grunnpóstþjónusta, en það orð er notað í frumvarpinu yfir það sem í nefndum tilskipunartillögum kallast universal service.

Grunnpóstþjónusta er í lögunum skilgreind sem viðtaka, flutningur, flokkun og skil á bréfum og öðrum sendingum með utanáskrift sem vega allt að 20 kg.

Gerir frumvarpið ráð fyrir skyldu ríkisins til að tryggja landsmönnum öllum nánar tilgreinda grunnpóstþjónustu, án tillits til búsetu og á viðráðanlegu verði. Er jafnframt gert ráð fyrir að ríkið tryggi aðra þjónustu, eins og þjónustu með fjármunapóstsendingar og sendingar með blindraletri.

Þessi ákvæði um grunnpóstþjónustu eru mjög mikilvæg fyrir afskekkt svæði á Íslandi sem og annars staðar innan EES.

[16:00]

Til þess að tryggja fjárhagslega afkomu grunnpóstþjónustu er í frumvarpinu skilgreindur samræmdur rammi fyrir þær þjónustugreinar sem hafa má í einkarétti. Verður einkaréttur til póstmeðferðar bundinn við bréf í umslögum eða öðrum sambærilegum umbúðum með sýnilegri áritun, allt að 350 g að þyngd, að því tilskildu að burðargjald slíkra sendinga sé ekki meira en fimmfalt burðargjald fyrir bréf sem falla undir lægsta burðargjald, sem er 35 kr. fyrir 20 g bréf samkvæmt núgildandi gjaldskrá Póst- og símamálastofnunar. Miðað við það verða póstsendingar þar sem burðargjald er hærra en 175 kr. utan einkaréttar.

Þá er að finna önnur nýmæli í frumvarpinu, sem eins og áður segir munu leiða til umtalsverðra breytinga á fyrirkomulagi og stjórn póstmála hér á landi.

Þannig má nefna að samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir því að íslenska ríkið feli einstökum póstrekanda samkvæmt sérstöku leyfi að fara með fyrrgreindan einkarétt sinn. Má gera ráð fyrir að póstrekandi sem fer með einkarétt ríkisins til póstmeðferðar muni einnig skuldbundinn til að inna af hendi áðurgreindar skyldur ríkisins.

Öðrum en þeim sem fengið hafa til þess sérstakt rekstrarleyfi Póst- og fjarskiptastofnunar verður einnig óheimilt að annast grunnpóstþjónustu.

Ráðherra verður þó heimilt að mæla fyrir um það í reglugerð að einstakir þættir grunnpóstþjónustu verði undanþegnir rekstrarleyfi. Er þá fyrst og fremst verið að horfa til aðila sem annast afmarkaða þætti þjónustunnar, t.d. einungis flutning frá einum stað til annars. Þeim verður þó gert skylt að skrá starfsemi sína hjá Póst- og fjarskiptastofnun.

Rekstrarleyfum til grunnpóstþjónustu munu fylgja skilyrði, sem skulu vera skýr og í samræmi við jafnræðisreglur. Sem dæmi um slík skilyrði má nefna að uppfylltar séu þjónustu- og gæðakröfur, að skylt sé að annast sérstök verkefni þó þau séu ekki arðbær og að virtar verði uppgjörs- og bókhaldsreglur sem settar kunna að verða.

Má gera ráð fyrir að skilyrðin verði fleiri þegar rekstrarleyfi er víðtækara og tekur yfir fleiri þætti og að þau verði færri eftir því sem leyfið er takmarkaðra. Þannig verða sjálfsagt sett ítarleg skilyrði fyrir leyfi til að fara með einkarétt ríkisins, m.a. skilyrði er varða áðurgreindar skyldur ríkisins.

Að lokum má nefna að samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir því að lagt verði á rekstrarleyfishafa sérstakt jöfnunargjald til þess að fjármagna skyldubundna grunnpóstþjónustu þar sem slík þjónusta er óarðbær. Verður gjaldið lagt á til að tryggja að grunnpóstþjónustu verði sinnt í dreifðari byggðum landsins og annars staðar þar sem slík þjónusta mun augljóslega ekki skila arði.

Fleiri nýmæli er að finna í frumvarpinu, sem eins og fram hefur komið mun leiða til grundvallarbreytingar á fyrirkomulagi póstmála hér á landi til samræmis við þá þróun sem orðið hefur í nágrannalöndum okkar á síðustu árum og fyrirsjáanleg er á næstu árum.

Hin nýja skipan á póstmálum sem er að finna í frumvarpi þessu mun auka samkeppni innan póstsviðsins verulega frá því sem nú er, þar sem stigin eru mörg mikilvæg skref í frjálsræðisátt.

Þó er gert ráð fyrir að grunnpóstþjónusta verði eftir sem áður sambærileg fyrir landsmenn alla að því er varðar verð og gæði. Mun það tryggt með skyldum ríkisins til að annast nánar tilgreinda þætti grunnpóstþjónustu um land allt, með jöfnunargjaldi og með takmörkuðum einkarétti ríkisins til póstmeðferðar.

Slík tilhögun er í samræmi við það sem tíðkast í nágrannalöndum okkar, en í fæstum aðildarríkja EES-samningsins hefur einkaréttur til póstmeðferðar verið með öllu afnuminn, til þess að tryggt sé að allir á svæðinu, hvar sem þeir búa, njóti sambærilegrar þjónustu. Er það einnig eitt meginmarkmið frumvarps til laga um póstþjónustu sem hér er lagt fram.

Ég legg til, herra forseti að málinu verði vísað til 2. umr. og samgn.