Póstþjónusta

Miðvikudaginn 13. nóvember 1996, kl. 16:05:16 (1159)

1996-11-13 16:05:16# 121. lþ. 23.15 fundur 151. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv., SighB
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur

[16:05]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð og að þessu sinni eru þau ekki um efnisatriði frv. Mér finnst, herra forseti, og ég vildi gjarnan óska eftir því að hæstv. samgrh. hlustaði, að menn geti ekki lagt fram svona texta fyrir hið háa Alþingi. Hér er verið að skýra orð enn einn ganginn. Hér á að festa í lög að orðið póstþjónustuaðili eigi að skýra: Aðili sem veitir póstþjónustu. Hvaða ástæða er til að binda svona lagað í lög? Svo vil ég benda hæstv. ráðherra á að þegar fjallað er um orð eins og t.d. póstkassi, þá er það gert svona í greinargerð með frv., með leyfi forseta: ,,Hugtakið póstkassi kemur fram í 7. gr. frv.`` Nú spyr ég hæstv. ráðherra: Hvenær varð póstkassi að hugtaki? Ég hélt að póstkassi væri hlutur en ekki hugtak. Síðan er hugtakið skýrt svona, með leyfi forseta: ,,Er hugtakið hér skilgreint [hugtakið póstkassi] sem kassi sem ætlaður er til viðtöku og uppsöfnun bréfapóstsendinga til frekari póstmeðferðar.`` Guð almáttugur hjálpi mér. Menn tala ekki lengur um að setja hluti í póst heldur að taka hluti til póstmeðferðar. Hæstv. samgrh. er orðhagur maður. Hann má ekki láta svona texta frá sér fara. Það er honum ekki samboðið að leggja svona texta fyrir Alþingi þó það varði kannski ekki meginefnisatriði málsins. En að ræða um póstkassa sem hugtak er alveg nýtt í sölum Alþingis.