Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1995

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 11:06:39 (1164)

1996-11-14 11:06:39# 121. lþ. 24.4 fundur 67#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1995# (munnl. skýrsla), SvG
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[11:06]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég blanda mér í umræðuna eins og oft áður á undanförnum þingum um starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar og byrja á því að þakka hæstv. forseta fyrir þá ræðu sem hann flutti. Ég tel að þar hafi komið fram mjög merkilegar stefnumarkandi yfirlýsingar um þróun Ríkisendurskoðunar á næstu árum sem skiptir mjög miklu máli að Ríkisendurskoðun fái tækifæri til þess að sinna. Í því sambandi nefni ég alveg sérstaklega umhverfisendurskoðunina sem var rædd hér þegar starfsskýrslan var til meðferðar á síðasta þingi en mér sýnist að hafi í raun og veru ekkert orðið úr. Mér þætti þess vegna mikilvægt að teknar yrðu um það ákvarðanir núna við ákvörðun um framlög til Ríkisendurskoðunar vegna ársins 1997 að gert verði ráð fyrir fjármunum til þessarar umhverfisendurskoðunar. Ég held að nauðsynlegt sé að beina því sérstaklega þeirra til fjárlaganefndarmanna sem hér eru að íhugað verði að Ríkisendurskoðun fái svigrúm til þess að sinna þessum nýja og mikilvæga þætti allrar endurskoðunar stofnana af hliðstæðu tagi í Evrópu um þessar mundir, þ.e. að umhverfisdæmið sé líka gert upp um leið og farið er yfir bókhald viðkomandi stofnana. Þetta er geysilega þýðingarmikið og þetta er undirstrikun á því, ef þetta verður gert af myndarskap, að við séum þeirrar skoðunar að öll mál séu græn, öll mál eru umhverfismál þegar upp er staðið vegna þess að þau snerta allt umhverfi sitt, bæði nærumhverfi og fjærumhverfi. Þess vegna vil ég nota tækifærið til þess að skora á hæstv. forseta og forustumenn fjárln. og aðra sem hér eru að beita sér fyrir því að á árinu 1997 fái Ríkisendurskoðun möguleika til þess að sinna þessum verkefnum sérstaklega. Mér finnst jafnvel hugsanlegt, hæstv. forseti, að fara í þetta að einhverju leyti sem tilraunaverkverkefni þannig að t.d. verði ákveðið að setja í það fjármuni vegna áranna 1997 og 1998 og svo verði málið metið í lok þess tímabils ef fólki finnst í of mikið ráðist að ákveða strax að verja til þess fjármunum til enn þá lengri tíma með viðeigandi fastráðningu starfsmanna þó að verkefnið sé mikilvægt.

Í öðru lagi vek ég athygli á því sem kom fram í ræðu hæstv. forseta Alþingis, sem er mjög mikilvægt, að hann er þeirrar skoðunar að það þurfi að kanna hvort Ríkisendurskoðun eigi ekki að hafa skýrari möguleika til að fylgjast með ríkisfyrirtækjum sem eru í hlutafélagaformi. Þó að ríkið eigi þau eru þau í hlutafélagaformi og þetta finnst mér reyndar liggja alveg í augum uppi. Auðvitað á Ríkisendurskoðun að sinna þessum málum hvernig svo sem hlut ríkisins er varið í viðkomandi stofnunum og fyrirtækjum, hvort sem þetta eru venjuleg ríkisfyrirtæki eða ríkisfyrirtæki sem eru rekin í kompaníi við einhverja aðra eða hvort um er að ræða hlutafélög þar sem ríkið á meiri hluta eða kannski alla hlutina. Þetta er mjög stórt mál og ég segi við þá sem berjast gjarnan fyrir því að ríkisfyrirtæki verði hlutafélagavædd að þetta er lykillinn að því. Þetta er lykillinn að því að hægt sé að skapa traust í kringum ákvarðanir um breytingu á ríkisfyrirtækjum í hlutafélög að tryggilega verði staðið að þessu. Þess vegna tel ég að hér sé um að ræða mál sem allir, hvaða afstöðu sem menn kunna að hafa til hlutafélagavæðingar, eiga að geta tekið undir og þess vegna fannst mér þetta mjög mikilvægt atriði sem fram kom í ræðu hæstv. forseta Alþingis.

Mér fannst það líka athyglisvert sem bent var á í sambandi við þjónustusamningana. Það verður auðvitað að ganga miklu betur frá þeim en fjmrn. ætlaði að gera. Ég held að eitthvert samkomulag hafi náðst milli fjmrn., embættismenn þar annars vegar og starfsmenn Ríkisendurskoðunar hins vegar um breytingu á frv. um þjónustusamninga sem var lagt fram í fyrra og unnið í fyrravetur en ég held þó að það samkomulag hafi ekki verið með öllu hnökralaust. Ég held að það þurfi að sinna því máli sérstaklega eins og hæstv. forseti benti áðan á.

Þá vil ég einnig vekja athygli á því atriði sem fram kom í máli hæstv. forseta Alþingis varðandi drög að frv. um breytingu á lögum um Ríkisendurskoðun. Það er tímabært að það verði flutt og í því verði unnið. Ég vil einnig taka undir sjónarmið hans um að sérstök nefnd verði til í þinginu sem hafi með Ríkisendurskoðunarskýrslurnar að gera og vildi inna hann eftir því hvort hann sæi það þannig fyrir sér að um leið yrði gerð breyting á þingsköpum Alþingis og gerð yrði breyting á lögum um Ríkisendurskoðun því að þetta þyrfti helst að fara saman ef taka á á málunum með þeim hætti sem hæstv. forseti nefndi áðan. Ég er sammála honum um að það á að verða til ný þingnefnd og mér sýnist að það hljóti að fara þannig að breytingar á lögum um Ríkisendurskoðun verði fluttar í frv. af forsætisnefnd og komi þá væntanlega sem allra fyrst til meðferðar.

Það er rétt sem fram kom í máli hv. frsm. að það þarf líka að setja reglur um það hverjir eiga að fylgjast með Ríkisendurskoðun. Hvernig verður því fyrir komið hér? Mér finnst ekki að forsætisnefnd Alþingis eigi að líta á sig sem stjórn Ríkisendurskoðunar eða yfirstjórn hennar að neinu leyti sem hefur þó viljað bera við að mér hefur fundist að forsetar Alþingis fyrr á árum hafi jafnvel haft tilburði í þá átt að þeir ættu að vera eins konar húsbændur Ríkisendurskoðunar. Það er ekki og það má alls ekki vera þannig. Hins vegar verður einhver að hafa formlega möguleika til þess að fylgjast með starfi Ríkisendurskoðunar og því sem þaðan kemur því þó að vitavörðurinn sé góður þarf hann vekjaraklukku. Eins og staðan er núna er ekki gert ráð fyrir því að neinn sérstakur aðili fylgist með því sem kemur frá Ríkisendurskoðun og það er slæmt.

Ég fagna því að lokum sérstaklega, hæstv. forseti, að ákveðið hefur verið að fá menn frá bresku ríkisendurskoðuninni til að gera úttekt á Ríkisendurskoðun. Það er mjög mikilvægt. Breska ríkisendurskoðunin er sennilega ein sú besta sem til er. Hún hefur þróast í gegnum marga áratugi og er fræg í þessum hópum í heiminum fyrir ákaflega vandaða vinnu. Það er líka mikilvægt að hafa það í huga í sambandi við bresku ríkisendurskoðunina að hún lýtur þingnefnd sem er skipuð með alveg sérstökum hætti samkvæmt mjög ströngum ákvæðum í þingsköpum breska þingsins. Þar er um að ræða fastanefnd en ekki lausanefnd sem er sú algengasta þar og þessi fastanefnd er þannig skipuð samkvæmt beinum ákvæðum í þingsköpum að hún á að vera undir forustu stjórnarandstöðunnar. Undanfarin ár hefur hún t.d. alltaf verið undir forustu Verkamannaflokksins þann tíma sem Íhaldsflokkurinn hefur verið við stjórnvölinn í Bretlandi og hugsunin er auðvitað sú að þarna sé um að ræða raunverulegt lýðræðislegt aðhald. Ég held að það sé eitthvað sem við getum líka lært af, líka í þessari stofnun, að reyna að treysta hvert öðru þvert á múra stjórnar og stjórnarandstöðu. Að vísu hefur sést í seinni tíð viðleitni til þess að stuðla að því að fleiri kæmust að málum en áður var en ég held að það væri mjög mikilvægt ef við legðum okkur fram um það að læra eins og mögulegt er af bresku ríkisendurskoðuninni. Ég hvet til þess að ekki bara embættismenn verði látnir ræða við þá sem þaðan koma heldur verði þingmönnum líka kynnt það hvernig farið er með ríkisreikninga og skýrslur ríkisendurskoðunar í breska þinginu. Fyrir því er hefð í nærri heila öld og af henni getum við örugglega mjög mikið lært.

[11:15]

Ég vil að lokum, hæstv. forseti, segja út af því sem hv. 5. þm. Vesturl. nefndi að ráðuneyti eru að biðja um úttektir á sjálfum sér til þess m.a. að verja sig stundum fyrir árásum. Ég tel það út af fyrir sig gott en að ráðuneytin hafi þó á stundum gengið allt of langt í þeim efnum. Ríkisendurskoðun á ekki að vera nein þvottavél fyrir ráðherra sem eru í kröppum pólitískum dansi. Ég hef séð dæmi þess á undanförnum árum en ætla ekki að nefna þau hér nákvæmlega hver þau eru. Ég kann ekki að meta það. Ríkisendurskoðun á að vera algjörlega sjálfstæð. Ég varð hins vegar var við það fyrir nokkrum missirum að Ríkisendurskoðun taldi mjög að sér þrengt af því að ákveðin ráðuneyti vildu endilega fá endurskoðunina til að skoða sig vegna þess að þau voru í kröppum pólitískum dansi. Og Ríkisendurskoðun taldi sig nánast neydda til að verða við þessum óskum. Ég er algjörlega andvígur því að Ríkisendurskoðun sé sett í svona stöðu. Mér finnst að hún eigi alltaf sjálf og sjálfstætt að geta metið, ekki aðeins þörf heldur líka óskir sem koma frá öllum. Og ég tel að ráðuneyti og ráðherrar eigi ekki að hafa sterkari stöðu gagnvart Ríkisendurskoðun en t.d. þingmenn og hver einstakur þingmaður, hæstv. forseti, en ekki bara þingnefndir eða einhverjar slíkar stofnanir.

Hins vegar er alveg rétt hjá hv. 5. þm. Vesturl. að þörf sé á að hægt sé að taka út ráðuneytin. Mér sýnist ekki vanþörf á að það sé gert miðað við t.d. svar sem ég fékk um starfsemi utanrrn. í dag frá utanrrn. Mér sýnist nú vera þörf á að láta skoða það mál aðeins betur, hæstv. forseti, en það er fyrir utan þessa umræðu sem ég að öðru leyti þakka fyrir.