Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1995

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 11:17:39 (1165)

1996-11-14 11:17:39# 121. lþ. 24.4 fundur 67#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1995# (munnl. skýrsla), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[11:17]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi þakka forseta þingsins fyrir mjög greinargóða framsögu í þessu máli. Ég tel starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar vera vel út garði gerða og skýra. Reikningar, sem eru birtir, eru vel og skilmerkilega upp settir. Það kemur í ljós í skýrslunni að unnið hefur verið skipulega sl. ár eftir áætlun Ríkisendurskoðunar að einstökum verkefnum. Sú áætlun sem upphaflega var gerð hefur staðist nokkurn veginn. Ég tel það vera til fyrirmyndar í stjórnsýslunni hvernig Ríkisendurskoðun hefur unnið. Sömuleiðis vinnubrögð hennar sem víkja að því að leggja sérstaka áherslu á tiltekna málaflokka og skoða þá vandlega fyrir utan hefðbundin störf. Þar tel ég sömuleiðis að um sé að ræða góð vinnubrögð. Enda held ég að það sé mat flestra sem til þekkja að Ríkisendurskoðun hafi unnið sér traust í þeim verkefnum sem hún hefur sinnt. Vitaskuld eru verkefni Ríkisendurskoðunar þess eðlis að í sumum tilvikum eru menn ef til vill ekki alltaf sammála. En ég fullyrði að Ríkisendurskoðun vinnur faglega og byggir sínar niðurstöður, þar sem álitamál eru, fyrst og fremst á faglegum forsendum.

Því ber að fagna sem rætt er um í skýrslunni og hefur verið gert hér að umtalsefni, þ.e. hið nýja svið innan endurskoðunarfræðanna, umhverfisendurskoðun, sem hefur rutt sér til rúms á undanförnum árum. Þetta er nátengt nýrri sérgrein innan hagfræðinnar og endurskoðun er hluti af þeim vísindum, sem kölluð eru umhverfishagfræði, sem við Íslendingar þekkjum ef til vill ekki mjög mikið til en miklar og vaxandi rannsóknir hafa verið stundaðar á því sviði einkum erlendis undanfarin 10--20 ár. Vafalítið á þetta eftir að ryðja sér meira til rúms hér á landi þ.e. vísindaleg vinnubrögð hvað varðar umhverfi okkar og eru þar fjölmargir þættir sem koma málinu við. Menn hefðu nú sjálfsagt ekki látið sér detta í fljótu bragði í hug að eitthvað væri yfirleitt til sem héti umhverfisendurskoðun. En hún er til og er þróuð grein innan þessara fræða. Áhersla Ríkisendurskoðunar á þann málaflokk sýnir að þeir fylgjast mjög vel með því sem er að gerast á alþjóðlegum vettvangi.

Einnig tel ég áherslu þeirra á upplýsingakerfi vera af hinu góða en þar er skoðun mín að ekki hafi tekist alveg nógu vel til í stjórnsýslu okkar. Ég tel að með útgáfu handbókar Ríkisendurskoðunar hafi verið unnið gott starf.

Það er rétt sem hæstv. forseti þingsins nefndi að erlend úttekt, sem hann ætlar að stuðla að, er mjög af hinu góða. Við þurfum sömuleiðis að tryggja betur framgang álita sem koma frá stofnunum þingsins og er það niðurstaða mín um þetta mál. Ég tel sjálfsagt að sérstök þingnefnd sé starfandi sem fjalli um málefni Ríkisendurskoðunar og umboðsmanns Alþingis. Það fellur mjög inn í þá umræðu sem er í gangi núna undir forustu forseta þingsins eða forsn. um endurskoðun á þingsköpum. Á það skortir í þinginu að betur sé fylgt eftir niðurstöðum stofnana sem heyra undir þingið. Við vitum að þeim niðurstöðum er ekki alltaf fylgt eftir af hálfu framkvæmdarvaldsins. Aðhald skortir líka af hálfu þingsins til að skerpa betur á þeim niðurstöðum og ganga eftir framkvæmd ýmissa mála. Ég tel að fullur vilji sé fyrir því meðal þingmanna að gefa þeim málum betri gaum. Ég held að reynsla þingsins af stofnunum af þessu tagi, þ.e. Ríkisendurskoðun og umboðsmanns Alþingis sé góð. Þær stofnanir eru ekki gamlar og ekki er mjög langt síðan Ríkisendurskoðun var færð undir Alþingi. Það ætti jafnvel að huga að fleiri þáttum sem ef til vill ættu að heyra undir Alþingi og gætu farið vel í umsýslu þess. Ég lít svo á að eftirlit sé að verða sífellt stærra verkefni af hálfu löggjafarvalds alls staðar í kringum okkur. Við erum ekki undanskilin þeirri þróun. Löggjöf á mörgum sviðum markast nú orðið af alþjóðlegum samningum, t.d. sem við kemur EES-samningnum, og við þekkjum vel á hinu háa Alþingi. Það gerir einmitt eftirlitshlutverk Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu og vönduð vinnubrögð við löggjafarstörf enn brýnni en áður.

Það er rétt að taka fram í umræðunni að frv. um fjárreiður ríkisins, sem verður væntanlega til umfjöllunar seinna í dag, og var reyndar fjallað um á síðasta þingi, breytir starfsháttum Ríkisendurskoðunar og reyndar starfi þingsins verulega. Ég tel að þar sé mjög gott mál á ferðinni. Ríkisendurskoðun hefur komið að samningu þess máls og skerpt á þeim vinnubrögðum og eftirlitsþáttum sem eru nauðsynlegir við þá endurskoðun sem þar er. Alþingi verður vitaskuld að breyta starfsháttum sínum út frá væntanlegri samþykkt þessa frv. og það er vel við hæfi að einmitt slík endurskoðun falli jafnframt undir þá þingskapaendurskoðun sem er í gangi og ég nefndi áðan.

Ég hef talið nauðsynlegt að efla ýmsa þjónustu við löggjafarþingið sem tengist málefnum eins og Ríkisendurskoðunar. Ég hef áður varpað því fram í þessum ræðustól að ég teldi vera mjög af hinu góða ef Alþingi ræki það sem ég kalla litla hagdeild eða ráðgjafarþjónustu á sviði hagrænna málefna. Við höfum á að skipa mjög góðum nefndariturum í starfsemi nefnda sem eru vel menntaðir á sviði lögfræði. Ég teldi af hinu góða ef við gætum líka haft betri aðgang að hagfræðilegri þekkingu í starfsliði þingsins þó ég viti vitaskuld að til eru stofnanir sem heyra undir framkvæmdarvaldið og eru í sjálfu sér boðnar og búnar til ráðgjafar. Ég tel þó þennan málaflokk að mörgu leyti vera þess eðlis að heppilegt væri fyrir starfsemi þingnefnda að eiga aðgang að slíkri sérfræðiþjónustu. Það er hins vegar mál sem tengist þessu að hluta en yrði ef til vill að ræðast í víðara samhengi og þá við endurskoðun þingskapa.

Mín niðurstaða er sú að þessi skýrsla Ríkisendurskoðunar sé góð og vel fram sett. Skýr framsaga forseta þingsins var greinargóð og þau sjónarmið og ábendingar hans um breytingar fannt mér allar vera af hinu góða og ég tek undir þær. Ég vænti þess að gott samstarf skapist í þinginu um að finna þessum málum þann allra besta farveg þannig að við munum gefa skýrslum og starfsemi þessara stofnana sem heyra beint undir Alþingi meira rúm í störfum okkar.