Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1995

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 11:26:19 (1166)

1996-11-14 11:26:19# 121. lþ. 24.4 fundur 67#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1995# (munnl. skýrsla), JónK
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[11:26]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Hér fer fram mikilvæg umræða um skýrslu Ríkisendurskoðunar. Ég vil byrja á að þakka Ríkisendurskoðun og starfsmönnum stofnunarinnar fyrir margvísleg samskipti sem hafa verið góð á liðnu ári eins og endranær. Ég kem að því síðar að fjárln. og ég, sem nefndarformaður, hef mikið saman við Ríkisendurskoðun að sælda. Ég vil einnig þakka forseta þingsins fyrir framsöguræðu hans. Ég tek undir að í henni komu fram mörg athyglisverð markmið sem vert er að staldra við og ræða.

Þegar hlutverki Ríkisendurskoðunar var breytt --- það mun hafa verið árið 1988 sem löggjöfin um hana var mótuð og hlutverki hennar breytt og hún aðskilin frá framkvæmdarvaldinu --- fól það í sér mikla og afgerandi breytingu. Það hefur áreiðanlega haft meiri áhrif í opinberri stjórnsýslu en liggur í augum uppi. Áður var Ríkisendurskoðun deild í fjmrn. Ég er ekki að segja að starfsemi hennar áður hafi ekki verið til neins gagns, síður en svo, en eðli þessarar stofnunar var gjörbreytt. Hlutverk hennar er m.a. að gefa Alþingi skýrslur um hin ýmsu málefni. Þær eru tilkomnar af ýmsum ástæðum. Til dæmis eru stjórnsýsluúttektir tilkomnar að eigin frumkvæði, aðrar eru að beiðni forsvarsmanna stofnana eða alþingismanna eða þá þingnefnda og kunnum við dæmi um þær skýrslur allar.

Hins vegar, eins og kom fram í ræðu hæstv. þingforseta, þarfnast það meðferðar og breytinga hvernig fjallað er um þessar skýrslur í þessari stofnun og hvernig þær eru afgreiddar og yfirleitt að þær hljóti formlega afgreiðslu Alþingis.

Ég vil taka undir þær hugmyndir sem hafa komið fram um það efni. Ég hygg að það væri farsælt skref að breyta þingsköpum á þann veg að stofna sérstaka nefnd sem hefði þá stjórnarskrármálefni og fjallaði m.a. um skýrslur Ríkisendurskoðunar og gæfi frá sér formlegt nál. sem kæmi til umræðu og afgreiðslu í Alþingi. Það væri viðeigandi lokaafgreiðsla og lokapunktur, ef svo má segja, á þetta ferli sem varðar þingið. Hér eru kosnar sérstakar stjórnarskrárnefndir í hvert skipti sem kemur fram frv. til stjórnarskipunarlaga. Þessi hlutverk gætu fallið saman þannig að ég tek undir þær hugmyndir sem hafa komið fram um þetta efni.

[11:30]

Ég tek undir það sem hér hefur fram komið um eftirlitshlutverk með Ríkisendurskoðun en auðvitað mundi slík formleg afgreiðsla Alþingis á skýrslum Ríkisendurskoðunar veita stofnuninni visst aðhald, þ.e. að skýrslur hennar yrðu afgreiddar formlega og kæmu hér til umræðu.

Eins og ég drap á í upphafi er eitt af hlutverkum Ríkisendurskoðunar að aðstoða þingnefndir og fjárln. hefur nýtt sér í nokkuð miklum mæli þá aðstoð. Ríkisendurskoðun gefur skýrslu um framkvæmd fjárlaga og ein slík skýrsla er nýkomin út. Fjárln. hefur beðið Ríkisendurskoðun um umsagnir um fjáraukalög hverju sinni og hefur það verið tekið upp núna á síðasta ári og nú skilar stofnunin inn skriflegri umsögn um fjáraukalagafrv. Þetta hefur verið nefndinni til hjálpar í hennar störfum og ég vil endurtaka þakkir til stofnunarinnar fyrir þau samskipti sem hafa verið með ágætum.

Fjárln. hefur tekið til umræðu skýrslur Ríkisendurskoðunar sem varða framkvæmd fárlaga og fjárhagsmálefni. Það var beðið um að skýrsla um stjórnsýsluúttekt á Byggðastofnun yrði tekin til umræðu í nefndinni og það var gert en það verður að segjast eins og er að síðan vantar afgreiðslu í framhaldi af því sem liggur ekki í augum uppi hvernig á að fara fram. Þetta er kannski skólabókardæmi um það sem upp kemur í þessum efnum. Þingið bað ekki um þessa skýrslu. Stjórnarformaður stofnunarinnar bað um hana. Þá er spurningin: Hvernig á Alþingi að taka þessa skýrslu til umræðu og hvernig á að draga strik undir afgreiðslu hennar? Ég hygg að ef slík nefnd væri komin á laggirnar eins og við töluðum um hér í þessari umræðu og eins og hæstv. forseti þingsins drap á í upphafi, væri eðlilegt að slík skýrsla færi til umfjöllunar í þannig nefnd.

Einnig var hér drepið á afar mikilvægt atriði um framtíðarhlutverk stofnunarinnar, þ.e. að hlutverk hennar verði m.a. að endurskoða starfsemi þeirra hlutafélaga sem ríkið á í og að því verði haldið til haga að það sé fortakslaust hlutverk Ríkisendurskoðunar að gera það og einnig að settar verði skýrar reglur um þjónustusamninga og það sé hlutverk Ríkisendurskoðunar að fylgjast með framkvæmd þeirra. Sú endurskoðun á lögum um stofnunina sem stendur yfir þarf að taka á þessum málum. Ég vil taka undir það sem fram hefur komið hér um það efni og leggja mikla áherslu á mikilvægi þess.

Ég ætla ekki að hafa öllu fleiri orð um starfsemi Ríkisendurskoðunar að þessu sinni. Þær ábendingar sem hafa komið til fjárln. í þessari umræðu varðandi stofnunina verða teknar til umræðu í nefndinni. Ég hlusta á þær með athygli og fyrir þeim er gerð grein í skýrslunni, m.a. þeim atriðum varðandi umhverfisendurskoðun sem hv. 8. þm. Reykv. minntist á áðan. Ég vil ljúka þessu á því að leggja áherslu á mikilvægi þessarar stofnunar fyrir löggjafarvaldið í landinu. Reynslan af starfinu hefur verið góð en það er nauðsynlegt að móta löggjöf til framtíðar í samræmi við breytta tíma.