Skýrsla umboðsmanns Alþingis 1995

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 12:26:10 (1176)

1996-11-14 12:26:10# 121. lþ. 24.5 fundur 66#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 1995# (munnl. skýrsla), JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[12:26]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir og fagna þeim svörum sem fram komu í máli hv. 1. þm. Reykn. og forseta þingsins. Það er mjög ánægjulegt að forsn. hafi beint þessu til fjárln., þeirri ósk að hækka fjárveitinguna og ég geri ráð fyrir og mun leggja til við allshn. að hún í áliti sínu til fjárln. styðji að þessi fjárveiting verði hækkuð sem ég tel mjög mikilvægt til að styrkja embætti umboðsmanns Alþingis.

Ég fagna því líka að á borðum forsn. er nýtt frv. um umboðsmann Alþingis sem byggir þá helst á ábendingum umboðsmanns. Ég tek því auðvitað að ekki er hægt að greina hér frá megintillögum eða breytingum sem fram koma í því frv. en geng út frá því að forsn. reyni að ná samstöðu allra þingflokka um málið áður en það verður lagt fyrir þingið vegna þess að mjög mikilvægt er að um þá löggjöf umboðsmanns Alþingis ríki sátt og samlyndi í þinginu. Ég geri því ráð fyrir að þau vinnubrögð verði viðhöfð og vænti þess að það sjái þá fljótlega dagsins ljós á þinginu. Ég þakka hv. þm. fyrir svörin.