Skýrsla umboðsmanns Alþingis 1995

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 12:57:08 (1182)

1996-11-14 12:57:08# 121. lþ. 24.5 fundur 66#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 1995# (munnl. skýrsla), SP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[12:57]

Sólveig Pétursdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að undirstrika að mannréttindaskrifstofan gegnir mjög mikilvægu hlutverki í löggjafarstarfinu, alla vega í þeim málaflokkum sem allshn. fer með. Mannréttindaskrifstofu eru einmitt mjög oft send mál til umsagnar og oft tekið tillit til þeirra ábendinga. Hv. 5. þm. Vesturl. kom sérstaklega með ábendingar um seinagang kerfisins og þar voru einkum nefnd til mál eins og forræðisdeilumál og fleiri slíkir málaflokkar. Vafalaust getur upplýsingaöflun í málum og efnismeðferð almennt tekið stundum mislangan tíma og sjálfsagt er oft erfiðara að takast á við málefni á sviði sifjaréttar. En ég er sammála því að þetta er ekki nógu gott og þörf ábending hjá hv. þm. Í þessu sambandi vil þó ég nefna að þetta atriði er reyndar í stjórnsýslulögum nú þegar. Þar er málshraði í stjórnsýslunni ein af meginreglunum. Með leyfi virðulegs forseta segir í 1. mgr. 9. gr.:

,,Ákvarðanir í málum skulu teknar svo fljótt sem unnt er.`` Og áfram er haldið er í 2., 3. og 4. mgr. þannig að þetta atriði er þegar í stjórnsýslulögum. En engu að síður er ábendingin þörf hjá hv. þm.