Skýrsla umboðsmanns Alþingis 1995

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 13:01:00 (1184)

1996-11-14 13:01:00# 121. lþ. 24.5 fundur 66#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 1995# (munnl. skýrsla), SP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[13:01]

Sólveig Pétursdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get svo sannarlega tekið undir að það er mjög mikilvægt réttaröryggisins vegna að mál gangi hratt og fljótt fyrir sig, en ég vil líka benda á setningar eins og þessi í 9. gr.: ,,Ákvarðanir í málum skulu teknar svo fljótt sem unnt er.`` geta þjónað hagsmunum beggja aðila og þetta er atriði sem þarf líka að hafa í huga.

Ég vil, með leyfi virðulegs forseta, aðeins fá að rifja upp önnur ákvæði þessarar greinar. Þannig segir í 2.--4. mgr.:

,,Þar sem leitað er umsagnar skal það gert við fyrstu hentugleika. Ef leita þarf eftir fleiri en einni umsögn skal það gert samtímis þar sem því verður við komið. Stjórnvald skal tiltaka fyrir hvaða tíma óskað er eftir að umsagnaraðili láti í té umsögn sína.

Þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast ber að skýra aðila máls frá því. Skal þá upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta.

Dragist afgreiðsla máls óhæfilega er heimilt að kæra það til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til.``

Virðulegi forseti. Ég vildi bara láta þessi atriði koma hér fram.