Fjárstyrkur til heilsárshótela á landsbyggðinni 1995

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 13:47:11 (1191)

1996-11-14 13:47:11# 121. lþ. 24.95 fundur 87#B fjárstyrkur til heilsárshótela á landsbyggðinni 1995# (umræður utan dagskrár), StB
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[13:47]

Sturla Böðvarsson:

Virðulegi forseti. Ekki er ljóst af þessari umræðu sem hér fer fram hvort tilgangurinn með henni sé að reyna að slá einhverjar pólitískar keilur eða hvort umræðan sé til þess að skýra málið.

Það er rétt að segja frá því, vegna þess að sá sem hér talar hefur nokkuð komið að þessu máli, að hæstv. samgrh. skipaði á sínum tíma nefnd til þess að fara ofan í stöðu svokallaðra heilsárshótela. Nefndin skilaði tillögum og gerði m.a. tilteknar tillögur um aðgerðir til styrktar þessum hótelum. Ég hef ekki tíma til að fara nákvæmlega ofan í þær, en það var alveg ljóst að það var mikill vandi hjá mörgum svokölluðum heilsárshótelum sem hafa verið burðarásar við uppbyggingu ferðaþjónustunnar í landinu. Og þeir sem eitthvað þekkja til þessara mála vita að þau hótel sem fá styrki hafa verið þessir burðarásar. Í hvaða samkeppni hafa þau verið? Þau hafa verið í samkeppni við aðila sem hafa fleytt rjómann af ferðaþjónustunni úti um landið yfir sumartímann sem er grundvöllurinn að uppbyggingu ferðaþjónustunnar í landinu í heild. Meðal þeirra sem fleyta rjómann eru aðilar sem fá, að ég tel, miklu meiri styrk úr opinberum sjóðum en þau hótel sem fá af þessum 20 millj. Þar má nefna Edduhótelin, en Edduhótelin sem eru einungis starfrækt yfir sumartímann og eru auðvitað mjög mikilvæg í ferðaþjónustunni, njóta óbeinna styrkja með niðurgreiddri húsaleigu. Ég veit ekki til þess að Samkeppnisstofnun eða hv. fyrirspyrjandi hafi gert tilraun til þess að láta skoða þá hluti.

Ég tel að heilsárshótelin svokölluðu sem fengu þessa styrki séu fyllilega vel að því komin að fá styrkina en auðvitað eru öll okkar verk umdeilanleg og allt orkar tvímælis þá gert er.