Fjárstyrkur til heilsárshótela á landsbyggðinni 1995

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 13:53:34 (1194)

1996-11-14 13:53:34# 121. lþ. 24.95 fundur 87#B fjárstyrkur til heilsárshótela á landsbyggðinni 1995# (umræður utan dagskrár), JBH
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[13:53]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Ég er ekki alveg viss um það hvort hv. alþingismenn eða aðrir sem þessa umræðu heyra eru nokkru nær um svör eða niðurstöðu í þessu máli. Hæstv. ráðherra fær heimild til ráðstöfunar á fé í þágu ferðaþjónustunnar og spurningarnar virðast vera afar eðlilegar um það hvað hafi legið til grundvallar þessari úthlutun og hvernig ráðherrann hyggist bregðast við fram kominni gagnrýni á vegum Samkeppnisráðs. Var þetta fé ætlað til þess að skuldbreyta hjá einstökum fyrirtækjum eða var þetta fé eyrnamerkt til markaðsátaks fyrir greinina í heild? Var verið að hygla einhverjum einstökum aðilum innan greinarinnar og þá verið að mismuna aðilum í viðskiptum sem eiga í samkeppni?

Þetta eru í alla staði afar eðlilegar spurningar og þess vegna æskilegt að svörin verði sæmilega skýr og þá eins hvort eitthvað megi af þessu læra. Mér kemur í hug að í tengslum við EES-samninginn var í nokkur ár varið allhárri fjárhæð, 50 millj. kr., til markaðsátaks til þess að nýta þau tækifæri sem EES-samningurinn hafði upp á að bjóða í útflutningi og markaðsátaki. Hvernig var að því staðið? Fyrsta mál á dagskrá var að reyna að mismuna ekki samkeppnisaðilum. Það var sem sé sett upp nefnd. Auglýst var eftir umsóknum og fyrir fram voru settar fram reglur, þ.e. mælikvarði á það hvað yrði haft til hliðsjónar við úthlutun á þessum fjármunum. Þrátt fyrir að þannig var að málinu staðið komu upp álitamál og gagnrýnimál eins og ég man vel. En þetta er þó sú aðferðafræði sem ber að viðhafa.

Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra nefndi til sögunnar formenn fjárln., fyrrv. og núv. Mér er ekki ljóst af því sem hann þar sagði hver þeirra hlutur var að málinu. Var hæstv. ráðherra að gefa í skyn að formenn fjárln. hafi ráðið því hvernig þessu fé var úthlutað eða var það á ábyrgð ráðherra og ráðuneytis?