Fjárstyrkur til heilsárshótela á landsbyggðinni 1995

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 13:58:14 (1196)

1996-11-14 13:58:14# 121. lþ. 24.95 fundur 87#B fjárstyrkur til heilsárshótela á landsbyggðinni 1995# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[13:58]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Tilefni þessarar umræðu er fyrst og fremst að reyna að fá svör frá hæstv. ráðherra hvers vegna gert var upp á milli hótela við úthlutun á þessum styrkjum. Þau svör hafa því miður ekki fengist og af svörum ráðherra má ljóst vera að hótel hafa ekki setið við sama borð. Það hafa ekki gilt sömu leikreglur við úthlutun þessara styrkja og hótelin hafa ekki setið við sama borð.

Hins vegar vakti athygli mína í ræðu ráðherra að hann vitnaði til skuldbreytinga og ég get ekki annað en vitnað til athugasemda sem komu fram í frv. til fjárlaga fyrir árið 1996, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Einnig fellur niður 20 millj. kr. framlag til Ferðamálasjóðs en á þessu ári var því framlagi varið til skuldbreytingar lána hjá hótelum á landsbyggðinni sem opin eru allt árið.``

Því spyr ég: Er þarna verið að vísa til sömu fjármuna og ráðherra hefur til þessa sagt að hafi farið í að styrkja hótel til að bæta nýtingu og markaðssetningu utan háannatíma? Var aldrei um að ræða sérstakan styrk til markaðsrannsókna? Þetta held ég að hæstv. ráðherra verði að upplýsa. Er hugsanlegt að fjármunir ríkissjóðs hafi verið nýttir til þess að greiða niður fjárfestingarlán keppinauta í sama atvinnurekstri? Hvernig má það vera að í svari til mín og bréfi til Samkeppnisstofnunar segir ráðherra að ,,styrkja hafi átt viðleitni til heilsárshótela á landsbyggðinni og til að auka nýtingu utan háannatímans``, þegar síðan segir í greinargerð með fjárlögum ársins 1996 að þessar 20 millj. hafi verið nýttar til skuldbreytinga? Þetta verður ráðherra að útskýra.

Það þarf því ekki að koma á óvart að mér hafi borist til eyrna að ætlun þeirra sem í hótelrekstri eru sé að kæra þessa málsmeðferð ráðherra til umboðsmanns Alþingis. Mál hafa verið borin undir hann af minna tilefni en þessu.