Einelti í skólum

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 14:02:59 (1198)

1996-11-14 14:02:59# 121. lþ. 24.96 fundur 88#B einelti í skólum# (umræður utan dagskrár), ÓÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[14:02]

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns leggja fyrir ráðherra þá spurningu sem mér brennur á hjarta en hún er sú: Mun menntmrh. beita sér fyrir rannsókn á umfangi eineltis í skólum? Þá á ég við á breiðum grunni, bæði varðandi það að nemendur stunda einelti gagnvart jafnöldrum sínum, nemendur stunda einelti gagnvart kennurum og kennarar stunda einelti gagnvart nemendum er upplýst en hitt er einnig þekkt að kennarar standi að einelti gagnvart kennurum.

Ég tel að þær fréttir sem okkur hafa borist frá Noregi í þessum efnum séu á þann veg að það sé vonlaust annað en taka þetta mál af miklu meiri alvöru en verið hefur. Sá sem stóð að þeirri vísindarannsókn þorði ekki að birta niðurstöðurnar í um 10 ár eða lengur. Hann vildi tryggja að allir nemendur væru farnir úr skólunum áður en hann birti niðurstöðuna og hann taldi að með því kæmi hann í veg fyrir að upplýsingarnar yrðu til þess að auka á ofsóknir á hendur einstökum nemendum.

Við Íslendingar búum ekki aðeins við fræðsluskyldu í landinu heldur líka skólaskyldu sem þýðir að nemendur eru skyldugir að mæta til ákveðins vinnustaðar, hvort sem þeim er það ljúft eða leitt, hvort sem þeir geta átt von á því að aðrir nemendur veiti þeim aðför á þeim vinnustað eða þá eins og upplýst er samkvæmt norsku könnuninni að það sé miklu algengara en nokkurn mann órar fyrir, að kennarar leggi nemendur í einelti.

Ég er ekki talsmaður þess að þessi norska rannsókn verði yfirfærð á íslenska kennara og sagt: Svona stór hópur kennara á Íslandi leggur nemendur í einelti. Það teldi ég högg fyrir neðan beltisstað. Ég tel að flestir kennarar, og þar tala ég af mikilli reynslu, séu menn sem hægt er að trúa fyrir því verkefni sem þeim hefur verið falið. En innan um virðast vera menn sem eru allsendis ófærir um að gegna því af þeirri trúmennsku sem til er ætlast. Vegna mikilvægis starfs síns sem er eitt af mikilvægustu störfum þessa lands verður alvara málsins enn þá meiri þegar þeir bregðast, þeir fáu sem eru ekki traustsins verðir.

Ég tel að hæstv. menntmrh. geri sér fulla grein fyrir því að með þeim málflutningi sem ég hef hér uppi er ekki á nokkurn hátt verið að vega að honum sem ráðherra. Hér er aðeins verið að fara fram á það að köllun tímans sé sinnt. Ég er sannfærður um að enginn hér inni hefði getað látið sér detta það í hug að það væri jafnalgengt eins og þessi norska skýrsla segir að einelti eigi sér stað á þann hátt að kennarar leggi nemendur í einelti. Sem betur fer vil ég segja það að ég tel að menningarheimur okkar Íslendinga sé það blandaður af norrænni menningu og það sem ég kalla menningu frá Ameríku að ég vona að þetta sé í miklu mæli hér, ég segi þetta ekki alveg út í bláinn vegna þess að sennilega eru Bandaríkin það land þar sem mest virðing er borin fyrir kennurum. Það fer enginn út í íslenska ritfangaverslun til að kaupa þar þakkarkort til kennara. Menn fara í íslenska ritfangaverslun til að kaupa afmæliskort eða eitthvað því um líkt, eða minningarkort e.t.v. En í bandarískum ritfangaverslunum geta menn keypt þakkarkort til kennara. Það segir dálítið um það að í þeim menningarheimi er borin viss virðing fyrir þessu starfi.

Annað hitt sem er kannski umhugsunarefni ef maður fylgist með sjónvarpinu að fyrst og fremst frá Bandaríkjunum sjáum við kvikmyndir þar sem kennari er talinn þess virði að vera aðalpersónan í kvikmyndinni og látinn kynna það á þann hátt hvernig góður kennari kemur fram eða þá öfugt. Ég tel að þetta segi dálítið um þessa hluti.

En nú blikkar ljósið og ég vil ekki níðast á þeim tíma sem mér er ætlaður en þessi spurning hefur ekki látið mig í friði eftir að ég heyrði þessa frétt í sjónvarpinu og ég vænti þess að hæstv. ráðherra sé mér sammála um mikilvægi málsins.