Einelti í skólum

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 14:17:09 (1201)

1996-11-14 14:17:09# 121. lþ. 24.96 fundur 88#B einelti í skólum# (umræður utan dagskrár), RG
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[14:17]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda vegna þess að það mál sem hér er tekið fyrir er mjög alvarlegt. Einelti virðist fyrst og fremst hefjast þegar börn byrja í skóla. Mér er ekki kunnugt um hvort einelti þekkist í leikskólum en ef svo er þá er vandamálið sem við blasir í dag enn þá alvarlegra.

Þegar börn byrja í skóla eru þau oftast eftirvæntingarfull og full tilhlökkunar. Nýr kafli er að byrja í lífi barnanna. Þetta eru tímamót og barnið hefur á forskólaaldri fengið óteljandi boð um þann nýja tíma sem hefst við upphaf skólagöngu. Öll boðin eru til þess fallin að skapa væntingar. Þess vegna verður stórt áfall fyrir barnið og foreldrana ef barnið er lagt í einelti. Oftast er það vegna þess að barnið verður af einhverjum orsökum bitbein jafnaldra eða eldri skólafélaga. Það sem átti að verða jákvætt tímabil í lífi barnsins verður að martröð.

Foreldrar hafa oft upplifað að skilningsleysis gæti hjá skólayfirvöldum þegar þeir bera sig upp vegna félagslegrar stöðu barnins í skólanum. En þær nýju upplýsingar að kennarar leggi börn í einelti í ríkum mæli valda óhug. Allir þekkja að nemendur eru í mismiklu uppáhaldi hjá kennurum en frá þeirri staðreynd að einelti er langur, alvarlegur vegur. Það er staðreynd varðandi ýmsar félagslegar kannanir að svipað hlutfall sé hérlendis og á Norðurlöndum. Það hefur átt við um sifjaspell, það hefur átt við um kynferðislegt ofbeldi og ofbeldi á heimilum. Ekkert gefur því til kynna að eineltið og nú einelti kennara sé minna hérlendis en kannanir á Norðurlöndum gefa til kynna.

Umboðsmaður barna hefur eftir því sem menntmrh. upplýsir ákveðið að taka málið upp og menntmrh. lofar að taka málið alvarlegum tökum. Þetta er mjög mikilvægt og við þingmenn munum fylgjast með.