Einelti í skólum

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 14:19:21 (1202)

1996-11-14 14:19:21# 121. lþ. 24.96 fundur 88#B einelti í skólum# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[14:19]

Hjálmar Árnason:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni fyrir að vekja máls á þessu viðkvæma máli. Einelti hefur tíðkast hér um áratuga skeið, árhundraða skeið, er eitt af þeim viðkvæmu málum sem gjarnan hafa fengið að þrífast í skúmaskotum því að menn hafa veigrað sér við að ræða þau opinberlega. Ég fagna því að þetta skuli því komið sérstaklega til umræðu hér.

Þetta fyrirbrigði er líka vandmeðfarið. Hvaða skilning leggja menn í hugtakið einelti? Ég harma að það hefur komið fram í umræðunni hér að tilhneigingar gætir til þess að fletja það út og víkja frá þeirri vísindalegu skilgreiningu sem er fyrir hendi.

Við getum sett okkur í spor kennara sem hefur 30 unglinga í bekk sínum af öllum stærðum, gerðum og þroskastigum og þarf að hafa á þeim aga til þess að þau geti lært. Oft þarf kennari að grípa inn í. Viðbrögðin eru misjöfn. En stundum heyrast í þeim viðbrögðum einelti, það gengur til foreldra nemenda í milli og leiðir oft til misskilnings. Rannsóknir erlendis sýna að einelti á sér stað. Þær rannsóknir hafa ekki farið fram hér. Engin ástæða er til að ætla annað en einelti eigi sér stað á Íslandi líka. Það kemur fram í þeim sögusögnum sem við heyrum nánast daglega, fréttum sem við lesum. Ég get sjálfur vitnað til tveggja áratuga starfs í skólum þar sem ég hef orðið vitni að því af hálfu kennara, nemenda, foreldra, í skólum, í íþróttahúsum og þannig má áfram telja. Þess vegna fagnaði ég því að þessi umræða skuli eiga sér stað á hv. Alþingi. Ég fagna undirtektum hæstv. menntmrh. og vonast til að niðurstöður rannsókna leiði síðan til aðgerða þar sem skólakerfið á að gegna mikilvægu hlutverki en ekki síður samskipti skóla, foreldra, nemenda og raunar allra þeirra sem koma að uppeldi barna okkar.