Einelti í skólum

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 14:26:23 (1205)

1996-11-14 14:26:23# 121. lþ. 24.96 fundur 88#B einelti í skólum# (umræður utan dagskrár), SvG
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[14:26]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 2. þm. Vestf. fyrir að vekja athygli á þessu máli og það er til siðs að segja í öllum svona umræðum: Umræðan er til góðs og hver hefur þetta eftir öðrum, stundum dálítið vélrænt, finnst mér. Það er ekkert endilega víst að hún þurfi að vera til góðs nema hún leiði eitthvað með jákvæðum hætti.

Spurningin er: Til hvers getur umræða af þessu tagi leitt í þessari stofnun? Hvað getur hún gert? Hvað getur Alþingi gert? Í umræðu um einelti er best að byrja á því að segja, og ég geri það a.m.k. af minni hálfu, orð eru dýr, orð eru gríðarlega dýr. Orðið einelti er gríðarlega vandmeðfarið, hvort sem um er að ræða nemendur, kennara eða aðra í þjóðfélaginu. Ég held að það sé rétt sem hv. þm. Hjálmar Árnason sagði áðan að menn þurfa að gæta sín á því að fara vel með orð af þessum toga til þess að lenda ekki í ógöngum og því að breyta umræðunni í allsherjarflatneskju um hluti sem menn ráða ekki við og ná ekki utan um.

Einelti getur stafað af margvíslegum ástæðum. Það getur verið myndbirting félagslegra vandamála eins og hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir drap á hér áðan. Það getur verið myndbirting þess að fólk ráði ekki almennilega við vinnuna sína af því að bekkirnir eru of stórir. Það getur verið myndbirting persónulegra vandamála einstakra kennara --- og gerum okkur grein fyrir því að kennarastéttin á Íslandi telur mörg þúsund manns, sennilega 7--8 þúsund manns eða svo. Það er við því að búast að af og til komi vandamál í svo stórum hópi. Þess vegna finnst mér nauðsynlegt að segja það í þessari umræðu þó að ég taki undir nauðsyn hennar. Ég geri það af einlægni. Ég þekki til þessara mála dálítið, bæði sem starfsmaður í ráðuneytinu og sem kennari um margra ára skeið. Það á að fjalla um þessi vandamál, en við megum ekki breyta umræðunni í galdraofsóknir af neinu tagi. Við skulum halda ró okkar í mál af þessu tagi og ég segi: Ég er ekki alveg viss um að umboðsmaður barna sé rétti aðilinn til að rannsaka þessi mál. Ég mundi nefna Rannsóknastofnun uppeldismála ef hún væri ekki kannski fullkennaravæn fyrir minn smekk að því er þetta sérstaka vandamál varðar. En ég hvet til þess að það verði farið í að rannsaka málið og haldið viturlega á því.