Einelti í skólum

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 14:31:23 (1207)

1996-11-14 14:31:23# 121. lþ. 24.96 fundur 88#B einelti í skólum# (umræður utan dagskrár), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[14:31]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég hef raunar engu við það að bæta sem hér hefur verið sagt nema ég vil taka undir orð þeirra sem hafa varað við að nota þetta orð --- einelti --- af gáleysi því það er mjög alvarlegt mál að ræða um einelti. Það er ekki hægt að yfirfæra það t.d. á stjórnmálastörf eða annað slíkt með þeim hætti sem var leitast við að gera í þessum umræðum. Hér er um viðkvæmt og vandasamt mál að ræða sem verður að taka á í því ljósi og ber að fjalla um af fullri alvöru. Eins og fram hefur komið snertir þetta einnig það umhverfi og það andrúmsloft sem skapast í kringum skólastarf hér á landi ef menn ætla að leggja höfuðáherslu á að einelti sé bundið við þær stofnanir þannig að hér er um mjög viðkvæmt mál að ræða. Ég ítreka það sem ég sagði að ég er reiðubúinn til að beita mér og aðstoða þá sem hafa frumkvæði að því að hrinda af stað rannsóknum um einelti og stofnanir á vegum menntmrn. verða það vafalaust líka. Á vegum Kennaraháskóla Íslands hafa einnig verið unnin rannsóknarverkefni sem snerta þessi mál þannig að við höfum allar forsendur fyrir að framkvæma hlutlæga athugun. Ég tel rétt, eins og málum er háttað og miðað við yfirlýsingar umboðsmanns barna, að sjá hvaða frumkvæði hann hefur í málinu. Við og aðrir, sem að því hljótum að koma, því ekki er þetta einvörðungu bundið við menntmrn., hljótum að taka þátt í að reyna að afla sem haldbestra upplýsinga um þetta mál. Um þetta snerist umræðan hér --- hvort menn væru viljugir til að framkvæma rannsókn. Ég endurtek, ég er viljugur að beita mér fyrir því eftir því sem ég hef tök á.